Vísir - Skólanámskrá

Smelliđ hér til ađ sćkja skólanámskránna á PDF formi   Efnisyfirlit Inngangur Pistill ritstjóra Skólastefna Öxarfjarđarskóla Skóli - umhverfi -

 • Mynd 1

Vísir - skólanámskrá

Smellið hér til að sækja skólanámskránna á PDF formi 

 Efnisyfirlit

Inngangur
Pistill ritstjóra
Skólastefna Öxarfjarðarskóla
Agi og umgengni
Skipulag náms og kennslu
 • Samkennsla
 • Hlutverk umsjónarkennara
 • Samstarf kennara
 • Stuðnings- og sérkennsla
 • Reglubundin próf og skimanir
 • Móttaka nýrra nemenda - Brúum bilið
 • Byrjendalæsi
 • Lengd viðvera
 • Nemendur með annað móðurmál en íslensku
 • Námsmat
 • Innra mat
 • Forföll og leyfi
Hagnýtar upplýsingar
 • Símanúmer Öxarfjarðarskóla  
 • Starfsfólk Öxarfjarðarskóla
 • Önnur símanúmer 
 • Skólabílstjórar
 • Tímasetningar skólabíla
 • Reglur í skólabílum
 • Ófærð - afboðun skóla
 • Skólaráð Öxarfjarðarskóla
 • Nemendaverndarráð Öxarfjarðarskóla
 • Menningar- og fræðsluráð Norðurþings
 • Áfallaráð Öxarfjarðarskóla
 • Umhverfisráð Öxarfjarðarskóla
Skóladagatal
 • Útskýringar á skóladagatali
Félag- og tómstundastarf
 • Fulltrúar í ungmennaráði Norðurþings
 • Nefndir í unglingadeild
 • Leiklist og sviðsreynsla
 • Stóra upplestrarkeppnin
 • Félagsmál
 • Haustgleði
Umhverfisstefna
 •  Frá umhverfisráði Öxarfjarðarskóla
Forvarnir
 •  Vímuefnavarnir
 • Einelti og félagatengsl
 • Áföll
Tölvumál
Mötuneyti
Samstarfsaðilar
 • Menningar- og fræðsluráð
 • Skólaráð
 • Foreldrafélag Öxarfjarðarskóla
 • Félags- og skólaþjónusta
 • Leikskóladeildir Öxarfjarðarskóla
 • Byggðasafn Norður-Þingeyinga
 • Heilsugæsla
 • Samtök fámennra skóla
 • Samstarf við Tónlistarskóla Húsavíkur
 • Atvinnuþema
 • Þemavika
Mat á skólastarfi 2011-2012
 •  Hvers vegna sjálfsmat?
 • Hver er tilgangurinn með sjálfsmati?
 • Val á matsaðferðum og matstækjum
 • Hvenær og hverjir?
 • Ytra mat - úttekt
 • Hvenær og hverjir?
Hugmyndir að umbótaverkefnum 2011-2013
 •  Skerpa kennslufræðilegar áherslur
 • Skilgreina framtíðarsýn okkar á skólastarfið
 • Vinna að námsmatsstefnu skólans
 • Endurskoðun Stóra-Vísis
Endurmenntunaráætlun 2011-2012
 • Fámennir skólar - samkennsla
 • Gerð kennslu- og námsáætlana
 • Uppbyggingarstefnan
 • Nýsköpun og frumkvöðlastarf
 • Námsmat
 • Mat á skólastarfinu
 • Vellíðan á vinnustað
 • Kennaranám/ starfsmenntun
Skipulag námshópa
 •  Inngangur
 • Almenn markmið
Námsgreinar
 • Tónmennt
 • Íslenska
 • Stærðfræði
 • Enska
 • Danska
 • Samfélagsgreinar og náttúrufræði
 • Íþróttir, skólasund, líkams- og heilsurækt
 • Lífsleikni
 • Myndmennt
 • Tölvu- og upplýsingatækni
 • Textílmennt
 • Smíðar
 • Valfög í unglingadeild - haustönn
 • Valfög í unglingadeild - vorönn
 

Inngangur 

Ágætu lesendur.

Öxarfjarðarskóli, er samrekinn leik- og grunnskóli frá haustinu 2008. Grunnskóladeildin er í Lundi. Leikskóladeildirnar hafa verið tvær, ein í Lundi og önnur á Kópaskeri. Nú er svo komið að vegna barnafæðar er ekki lengur rekstrargrundvöllur fyrir deildina á Kópaskeri. Aðeins eitt barn sótti um vist þar skólaárið 2012-2013, en stefnt er á að taka upp starfsemi þar aftur ef þörf krefur. 

Námskrá

Námskrá öxarfjarðarskóla,  Litli-Vísir og Stóri-Vísir eru á vef skólans. Þar sem námskráin fer nú eingöngu á heimasíðu skólans er þetta að miklu leyti samofið plagg. Í Litla-Vísi er fyrst og fremst almennur hluti skólanámskrárinnar. Í Stóra-Vísi er hverri námsgrein hins vegar gerð skil. Skólanámskrá þarfnast sífelldrar endurskoðunar og hún tekur því einhverjum breytingum frá ári til árs. Námskrá leikskóladeilda er á vef skólans.Litli-Vísir kom upphaflega út í ritstjórn Péturs Þorsteinssonar og er að okkar mati samofinn námskránni og fylgir ritstjórapistill hans námskránni áfram með hans leyfi.

Aðalmarkmið skólanámskrár er að gefa ljósa mynd af þeim starfsháttum, áherslum og stefnum sem endurspeglast í skólastarfinu. Auk þess er þar töluvert af hagnýtum upplýsingum sem þægilegt er að hafa aðgengilegar á einum stað. Slíkar upplýsingar geta þó aldrei verið tæmandi og við munum halda áfram að senda fréttakorn um starf skólans beint til foreldra og á vef Öxarfjarðarskóla. Við viljum byggja upp gott samstarf og upplýsingastreymi milli heimila og skóla. Lykilatriði í góðu skólastarfi er góð samvinna foreldra, nemenda og starfsfólks skólans. Við viljum þakka foreldrum/forráðamönnum og öðrum velunnurum fyrir þá velvild sem þeir hafa sýnt starfi skólans og ítreka að dyr skólans standa ykkur ávallt opnar og við tökum fagn­andi þeim gestum sem heimsækja okkur í skólann og svörum gjarnan þeim spurn­ingum sem upp kunna að koma.

Heildstæður skóli og þróunarstarf

Við höfum verið að byggja upp og þróa framsækið og heildstætt skólastarf með lengdri viðveru starfsfólks og nemenda og þar sem kennsla, heimanám og ýmis námskeið eru í samfellu. Vegna niðurskurðar var lengd viðvera lögð niður um óákveðin tíma en vonandi verður hægt að taka upp lengda viðveru að nýju á fjárhagsárinu 2014. Við viljum leggja rækt við vellíðan nemenda og starfs­fólks, sem er undirstaða ánægjulegs vinnustaðar. Við munum halda áfram að vinna að vistvænni hegðun og leggjum áherslu á að Öxarfjarðarskóli sem gerir sér far um að nemendur kynni sé stórbrotna náttúru nærumhverfisins m.a. í samstarfi við Björgunarsveitina Núpa. Unglingadeildarsamstarf Öxarfjarðarskóla og Björgunasveitarinnar Núpa hefur vakið athygli enda frumkvöðlastarf þar á ferð. Unglingadeildarsamstar Öxarfjarðarskóla og Björgunarsveitarinnar mun halda áfram þrátt fyrir að lengd viðvera hafi fallið niður.

Samstarf  Öxarfjarðarskóla við Tónlistarskólann á Húsavík

Skólaárið 2010-2011 var hafinn undirbúningur samstarfs við Tónlistarskólann á Húsavík. Haustið 2011 hófst svo formlegt samstarf. Föstudaginn 14. október 2011 rættist langþráður draumur þegar marimbahljóðfærin komu í hús og voru það velunnarar skólanna beggja sem gerði okkur þetta fært. Kennarar  við Tónlistarskólann koma nú, skólaárið 2012-2013,  þrjá daga í viku og kenna á hin ýmsu hljóðfæri, auk þess að kenna tónmennt, og  hljómar tónlist um húsið þessa daga. Við teljum þetta samstarf auka gæði skólastarfsins og erum þakklát fyrir þetta samstarf.

Þróunarstarf

Haustið 2010 hófum við samstarf við Háskólann á Akureyri í tengslum við þróunarverkefnið Byrjendalæsi. Öxarfjarðarskóli leggur mikla áherslu á læsi í víðum skilningi og viljum afla okkur  sem mestrar þekkingar á því sviði. Þróunarverkefninu Byrjendalæsi lauk formlega vorið 2012  með útskrift þeirra kennara sem tóku þátt en að sjálfsögðu unnið áfram með  Byrjendalæsi og kennsla á yngsta stigi einkennist af  hugmyndafræði byrjendalæsis. Skólaárið 2012-2013 var Öxarfjarðarskóli með þrjú önnur þróunarverkefni. Í samstarfi við Háskóla Íslands er það þróunarverkefnið Leiðsagnarmat undir leiðsögn Ingvars Sigurgeirssonar og lauk því vorið 2013. Í samstarfi við Háskólann á Akureyri erum við með þróunarverkefnið Orð af orði, fyrsta hluta þess lauk s.l. vor . Í haust 2014 erum við áfram í samstarfi við Háskólann Akureyri með þróunarverkefnið Orð af orði, framhald af fyrsta hluta. Leikskóladeild hefur einnig tekið þátt í þróunarstarfi í tengslum við læsi, Byrjendalæsi og Les for meg. Leikskóladeild og yngsta stig grunnskólans tóku þátt í þriggja ára norrænu þróunarstarfi, Les for meg. Því samstarfi lauk s.l. vor.
 
Með vinsemd og virðingu
fh. starfsfólks Öxarfjarðarskóla
 
Guðrún S. Kristjánsdóttir
skólastjóri
 

Ritstjórapistill

Hve feginn vildi ég enn fyrir yður brýna:
hvert einstakt líf, það biður um samhjálp þína.

(Bertolt Brecht, þýð. H. K. Laxness)

Frjálslynd mannúðarstefna
Einstaklingurinn er grunneining samfélagsins. Einstaklingur setur mark á samfélag sitt með orðum sínum og gjörðum, en gjörðir annarra, leikreglur samfélagsins og tíðar­andi, móta hann. Örlög hans eru órjúfanlega samofin örlögum annarra manna. Enginn er ey­land.
Til að samfélag fái notið allra krafta sinna þarf  hver einstaklingur að vera frjáls til orðs og æðis innan þeirra marka sem sömu réttindi annarra manna setja honum. Hann þarf að virða rétt annarra til að haga lífi sínu á annan veg en hann sjálfur kýs. Hann þarf að vera reiðu­búinn í sókn og vörn fyrir þau gildi sem hann telur réttlát og skyn­samleg og hann þarf að vera reiðubúinn að endurskoða afstöðu sína ef hann reynist hafa á röngu að standa. Hann þarf að skilja að gagnrýni er forsenda umbóta og að rök­ræður og frjáls skoðana­skipti eru tæki til að bæta heiminn. Umburðarlyndi, réttlætis­kennd og hreinskiptni eru höfuð­dyggðir hins farsæla manns.
Bældir menn og undirgefnir eru ófærir um að móta samfélag sitt og þróa það á betri veg. Hæfileikar þeirra fara í súginn, sérkenni þeirra glatast og samfélagið verður snauð­ara og fábreyttara. Valdstjórn spillir einnig þeim sem ráða. Þeim verður tamt að sækja styrk sinn í formlegt vald stofnana og lagabálka fremur en rökræðu og samráð. Þeir telja gagnrýni jafngilda árás og umbótatillögur kalla þeir vantraust. Samfélag vald­boðs og undirgefni er því allt í senn ófrjótt, óskilvirkt og ómennskt. Það er gróðrarstía spillingar og óheiðar­leika. Hræðslu­gæði koma í stað siðferðilegrar afstöðu. Hlýðni í stað frumkvæðis. Undan­brögð í stað áhuga.
Heimur í hnotskurn
Skólinn er heimur í hnotskurn. Í tíu ár er hverju barni gert að búa í þessum heimi og sú mótun sem það fær í heimi skólans verður drjúgur hluti heimanmundar þess. Sé heimur skólans heimur valdboðs og undirgefni munu nemendur hans draga dám af þeirri reynslu ævilangt. Skorti heim skólans gildismat um breytni er hætta á að þegna hans skorti sið­ferði­leg viðmið þegar á reynir. Sé virðingarleysi fyrir náunganum og skeyt­ingar­leysi um samfélag manna og umhverfi látið viðgangast í heimi skólans kann það einnig að verða freistandi valkostur síðar í lífinu. Sama máli gegnir um hið góða. Einkennist heimur skólans af trausti og gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi, hrein­skiptni og réttlætiskennd mun hann útskrifa siðferðilega ábyrga einstaklinga sem hafa til þess vilja og getu að bæta samfélag sitt og auðga það með framlagi sínu.
Tíminn
Auðvelt er að sannreyna að tiltekinn nemandi hafi sótt þær kennslustundir sem honum bar samkvæmt viðmiðunarreglum yfirvalda. Erfiðara er að sannprófa að hann hafi hlotið kennslu og námsefni við hæfi og erfiðast að fullyrða að hann hafi beint orku sinni og áhuga að þeim viðfangsefnum sem skólinn ætlaði honum að sinna. Öll þekkjum við ein­stakl­inga sem fengu steina fyrir brauð alla sína skólagöngu og voru í raun í eins ­konar fangelsi skólaskyldunnar. Bandaríski félagssálfræðingurinn William Glasser segir reyndar í bók sinni Skóli án tapara, að einungis í skólum og fangelsum skipti sá tími sem varið er á staðnum meira máli en sú vinna sem innt er af hendi.
Þessi kenning Glassers vakti undirritaðan til umhugsunar um hlutverk tímans í skóla­starfinu og mikilvægi þess að nemendur upplifi hann sem sína eign. Til þess þarf nem­and­inn að hafa ráðstöfunarrétt yfir tíma sínum, að minnsta kosti að hluta. Hann þarf að finna, að með skipu­lögð­um vinnubrögðum getur hann í senn uppfyllt kröfur skól­ans um afköst og verklag og jafnframt skapað sér frjálsan tíma sem hann hefur fullt vald til að ráð­stafa í samræmi við eigin áhugamál. Með þessu móti falla skyldur og réttindi í einn farveg þegar vel tekst til. Skyldustörf og áhugamál, vinna og leikur verða merkingarbær heild og nemandinn lærir að stjórna lífi sínu og tíma í stað þess að vera meira eða minna nauðugur þolandi skylduvistar í skóla. Undirritaður leyfir sér að fullyrða að ekkert eitt ráð sé betri vörn gegn skólaleiða og þeirri uppreisnarþörf sem af honum leiðir.
Hugmyndalegt samhengi
Skólasýn og agastefna Öxarfjarðarskóla á rætur í mannskilningi og samfélags­hug­sjón­um frjáls­lyndra heimspekinga á borð við John Stuart Mill, Karl R. Popper og John Rawls, uppeldisspekinga á borð við John Dewey og Mariu Montessori, félags­sálfræð­inga á borð við William Glasser, Thomas Gordon og Dianne Gossen og gagnrýninna hugsuða á borð við John Holt, Nils Christie og Jock Young. Þá sækir Öxarfjarðar­skóli hugmyndir til þeirrar hreyfingar í menntamálum sem kennd er við opna skóla og opnar skólastofur og rekja má til Bretlands, Bandaríkjanna og síðast en ekki síst til íslenskra skóla sem margir hverjir hafa tileinkað sér hugmyndafræði opna skólans.
Um Litla-Vísi
Dagana 13. og 14. mars 2003 heimsóttu starfsmenn Öxarfjarðarskóla Hallorms­staða­skóla og nutu frábærrar gestrisni skólastjórnenda, ann­arra starfs­manna og nem­enda.
Ég er sannfærður um að hópurinn okkar hafði ómetan­legt gagn af heimsókninni að Hallormsstað og gæti rökstutt það á ýmsa vegu. Læt nægja að nefna þá bjargföstu trú mína að frá­bær verk valdi óafturkræfum breytingum á þeim er þeirra njóta. Gildir þá einu hvort um er að ræða listilegan smíðisgrip, leiksýningu, ljóð, mynd eða framúr­skarandi skóla. Menn ganga ríkari frá listaverkinu, betri menn og menntaðri. Mæli­kvarðar hafa breyst, viðmið hækkað. Skólastarfið á Hallormsstað er verk af þessum gæða­flokki og það lét ekkert okkar ósnortið.
Ég nefni þetta hér til að þakka Sif Vígþórsdóttur skólastjóra á Hallormsstað og sam­starfs­fólki hennar fyrir það einstaka örlæti að heimila okkur að nota og misnota Skóla­nám­skrá Hallormsstaðaskóla að vild við frágang Litla-Vísis. Efnisþættir og efnistök í Litla-Vísi eru að verulegu leyti sniðin eftir henni. Ég færi henni okkar bestu þakkir fyrir ómetanlega aðstoð.
Starfsmönnum Öxarfjarðarskóla þakka ég ánægjulegt samstarf við gerð Litla-Vísis. Við höfum rætt textann ítarlega á starfsmannafundum og lagt okkur fram um að gera hann sem best úr garði. Ágallar á verkinu skrifast algjörlega á minn reikning.
 _________________________________
Pétur Þorsteinsson
Efst í efnisyfirlit

Skólastefna Öxarfjarðarskóla

Lögum samkvæmt er hlutverk grunnskólans að búa nemendur undir líf í lýðræðis­þjóð­­félagi sem er í sífelldri þróun. Öxarfjarðarskóli telur að það verði best gert með því að veita hverju barni færi á að rækta sérkenni sín og hæfileika, taka ábyrgð á eigin breytni og hlutdeild í mótun skólasamfélagsins. Hvert barn þarf að skynja að framlag þess skiptir máli fyrir þróun samfélagsins; að breytni þess hefur áhrif á líðan annarra og að vel­ferð þess er órjúfanlega samofin velferð þeirra. Ræktun ein­staklings­eðlis og sam­líðan með náunganum eru ekki andstæður heldur tvær hliðar á sama peningi. Lýð­ræðis­þjóð­félag í sífelldri þróun þarf þetta tvennt.

Skóli - umhverfi - samfélag

Skóli - umhverfi - samfélag

Grunnskólinn er órjúfanlegur hluti þess samfélags sem hann þjónar. Hvorugt þrífst án hins. Góður skóli er ein styrkasta stoðin í framsýnu byggðarlagi. Hann þarf í senn að koma nemendum til fyllsta þroska og efla og auðga menningarlegt umhverfi þeirra.

Starfsfólk Öxarfjarðarskóla vill skapa heildstæðan skóla þar sem kennsla, nám, heimanám og frístundir eru í samfellu. Við viljum tengja starf skól­ans við stórbrotna náttúru svæðisins, atvinnu og lífs­hætti íbúanna og fyrri reynslu nemenda. Við viljum hlúa að rótum samfélagsins og kenna nem­endum að meta uppruna sinn og umhverfi að verðleikum. Starfið í skól­an­um á að nýta sér kosti, sérstöðu og séreinkenni byggðar­lagsins og stuðla að frekari þróun og upp­bygg­ingu þess.

Öxarfjarðarskóli er fámennur skóli og þess vegna er tveimur til fjórum árgöngum skip­að saman í námshóp. Fámennið auðveldar okkur að þekkja stöðu hvers nemanda og mæta sérkennum hans og sérþörfum. Starfsfólk skólans vill nýta kosti sam­kennsl­unn­ar og hyggst afla sér frekari þekkingar á því sviði, til dæmis með auknu samstarfi við Sam­tök fámennra skóla og einstaka skóla, svipaðrar gerðar, sem náð hafa framúr­skarandi árangri.

Í Öxarfjarðarskóla er stefnt að því að nota fjöl­breyttar kennsluaðferðir. Lengd viðvera, sveigjan- legur vinnu­tími, val­kerfi og vinnusamningar, einstaklings­kennsla, hóp­vinna, samvinnunám og margt fleira eru hugtök sem einkenna skóla­starfið. Kennslu­aðferðir henta nem­endum, aldurs­hópum og náms­greinum misvel og vill skólinn koma til móts við mis­mun­andi þarfir með fjölbreyttum vinnu­aðferðum. Það er stefna skól­ans að kenna nem­endum notadrjúg vinnu­brögð. Leggja ber áherslu á að nemendur kynn­ist mis­mun­andi vinnu­aðferð­um, þannig að þeir geti gert sér grein fyrir því hvaða leið hentar þeim hverju sinni. Þótt vissu­lega sé mikil­vægt að nem­andinn tileinki sér þau þekkingar­atriði sem til er ætlast, telja kennarar skól­ans ekki síður mikil­vægt að nem­end­ur læri vinnubrögð sem nýtast þeim í flóknu sam­fél­agi nútímans og auð­velda frekara nám.

Efst í efnisyfirlit

Uppbyggingarstefnan – Uppeldi til ábyrgðar

Uppbyggingarstefnan er hluti af skólastefnu Öxarfjarðarskóla og annarra skólastofnanna í Norðurþingi og þó nokkrir skólar hafa tekið upp á Íslandi. Uppbyggingarstefnan byggir á aðferð Diane Gossen sem hún kallar uppbyggingu (Restitution) og er viðtalstækni reist á grundvallarkenningum heimspekingsins William Glassers. Hún er ólík öðrum aðferðum sem notaðar eru í menntakerfinu vegna þess að markmiðið er að kenna börnum og unglingum sjálfsaga. Áherslan færist þannig frá því að reyna að stjórna með umbun og refsingu yfir í það að kenna börnunum að mæta þörfum sínum á sanngjarnan og ábyrgan hátt. Aðferðin er fólgin í því að kennarinn talar við nemendur um það hvers konar fólk þeir vilji vera, hvers konar manngildi þeim finnist mikilvæg og þeir vilji hafa í heiðri og skapa í opnum umræðum sáttmála um gildin, sáttmála sem síðan er hægt að visa í. Stefnan kennir að eðlilegt sé að gera mistök. Við eigum að lagfæra þau mistök sem við gerum, læra af þeim og gefa öðrum tækifæri til að leiðrétta mistök. Hvart barn þarf að skynja að framlag þess skiptir máli fyrir þróun samfélagsins; að breytni þess hefur áhrif á líðan annarra og að velferð þess er órjúfanlega samofin velferð þeirra.

Uppbyggingarstefnan hefur það að langtímamarkmiði að við hugsum um hvernig manneskjur við viljum vera og finnum leiðir sem eru færar til að ná þeim markmiðum. Í nýrri Aðalnámskrá, Almenna hluta bls. 16, segir að mikilvægt sé að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Í Uppbyggingarstefnunni er gengið út frá þörfum hvers og eins.

Sáttmáli

Skólasáttmálinn er listi yfir setningar um lífsgildi sem hópurinn hefur trú á að séu mikilvægar. Setningarnar/gildin koma frá einstaklingunum í hópunum og samningurinn segir til um hvernig meðlimir hópsins hafa samþykkt að hegða sér hver gagnvart öðrum. Um er að ræða þrenns konar samninga/sáttmála.

 • Starfsfólk gerir samning um félagsleg samskipti sín.
 • Hver námshópur gerir samning með umsjónarkennara.
 • Skólinn sem heild hefur samning sem allir eru sammála um.

Sáttmálar Öxarfjarðarskóla:

Starfsmannasáttmáli

Við ætlum að hafa í heiðri eftirfarandi gildi: Gagnkvæma virðingu, heiðarleika, trúnað, fagmennsku, hlýlegt viðmót og festu. Við ætlum að vera gott fordæmi fyrir nemendur þegar kemur að jafnrétti og lýðræði.

 1. Gagnkvæm virðing: Við komum fram við hvert annað af virðingu, eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur. Tölum um hvert annað af virðingu.
 2. Heiðarleiki: Við komum fram við hvert annað af einlægni. Verum heiðarleg hvert við annað.
 3. Fagmennska: Við vinnum af fagmennsku okkar störf. Sú þekking sem til er í hópnum kemur öllum til góða.
 4. Hlýlegt viðmót og kurteisi: Temjum okkur hlýlegt viðmót og kurteisi því það eykur vellíðan okkar allra.
 5. Festa: Við reynum að skapa öruggan og ákveðinn ramma í kringum skólastarfið. Í samskiptum við nemendur, hvert annað og starfið. Við umgöngumst nemendur af hlýju og festu.
 6. Jafnrétti og lýðræði: Við umgöngumst hvert annað á jafningjagrundvelli og með hag og óskir allra starfsmanna að leiðarljósi. Forðumst hroka og yfirlæti.
 7. Trúnaður: Við sýnum hvert öðru fyllsta trúnað svo og nemendum og fjölskyldum þeirra.
 8. Samviskusemi: Mætum samviskulega og sýnum heilindi og sinnum starfinu af alúð.

Sáttmáli 8. – 10. bekkjar

 1. Sýnum hvert öðru virðingu.
 2. Verum kurteis hvert við annað.
 3. Hafa gaman – meiri fjölbreytni.
 4. Tökum vel á móti öllum.
 5. Göngum vel um.
 6. Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. 

Sáttmáli 5. – 7. bekkjar

 1. Iðinn og hjálpsamur bekkur.
 2. Sýna virðingu.
 3. Ganga vel um.
 4. Sýna tillitsemi.
 5. Vera vinir.

Sáttmáli 1. – 4. Bekkjar

 1. Allir eru vinir.
 2. Vera góður við aðra.
 3. Við bjóðum alla velkomna í hópinn.
 4. Hlusta á aðra.
 5. Allir leika sér saman.
 6. Koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
 7. Allir eru vinir hér
  og eiga góðar stundir.
  Og allir vilja leika sér
  út um grænar grundir.

Efst í efnisyfirlit

Nemendur

Í Öxarfjarðarskóla er nemandinn settur í önd­vegi í skólastarfinu; menntun hans, al­hliða þroski og líðan. Skólanum ber að örva nem­endur til sjálfstæðrar hugsunar, rækta með þeim víðsýni og umburðarlyndi og styrkja á alla lund forsendur þeirra til að bæta umhverfi sitt. Skólinn á að opna augu nemenda fyrir mikilvægi menntunar og nauð­syn þess að miðla reynslu og þekk­ingu manna á meðal. Skólanum ber að rækta fegurðarskyn nemenda og hvetja þá til að njóta góðra listaverka, bókmennta, tónlistar og myndverka, með opnum huga.

Í skólanum er lögð áhersla á að nemendur læri mikið og að þeim líði vel. Líðan og náms­framvinda eru órjúfanlega tengd. Ef nemanda líður illa vill skólinn bæta úr því með skjótum hætti. Nemendur þurfa að tileinka sér bóklega og verklega þekkingu og tækni, en ekki síður að temja sér farsæl samskipti við fólk; fólk á ýmsum aldri, af ólíkum upp­runa, gætt mismunandi hæfileikum, af báðum kynjum, fatlað og ófatlað. Jákvæð og upp­byggileg samskipti við ólíka einstaklinga stuðla að góðri líðan og aukn­um þroska, víðsýni og umburðarlyndi.

Í Öxarfjarðarskóla leggjum við mikla áherslu á að með auknum aldri og þroska axli nem­endur sívaxandi ábyrgð á eigin námi undir leiðsögn kennara sinna. Við teljum mikil­vægt að nemendur temji sér að skipu­leggja viðfangsefni sín og vinnutíma innan þess ramma sem lög og reglugerðir setja skól­anum. Við teljum að verk­lag af þessu tagi og það viðhorf til náms sem það byggir á sé afar mikilvægt veganesti fyrir nem­endur okkar þegar þeir hefja nám í framhaldsskóla, fjarri heimilum sínum, að loknu grunnskóla­prófi. Nemandinn þarf að hafa svigrúm til að rækta áhugamál sín og sérgáfur. Hann þarf einnig að hafa tíma til að leika sér með skóla­félögunum, enda er leikurinn eðlileg námsleið barna og nauð­syn­leg þjálfun í mannlegum samskiptum og kemur lengd viðvera í Öxarfjarðarskóla til móts við þessar þarfir.

Efst í efnisyfirlit

Starfsmenn

Starfsfólk skólans mótar skólaandann öðrum fremur með breytni sinni og fram­göngu. Það greinir rétt frá röngu með fordæmi sínu og viðbrögðum. Starfsfólk Öxar­fjarðar­skóla leitast við að búa nemendum sáttfúsan og rétt­látan heim þau tíu ár sem velferð þeirra er í þess höndum að hluta. Starfsfólkinu ber að sýna nem­endum fyllstu virðingu og ætlast til þess að nemendur sýni því og öllum öðrum sam­bæri­lega virðingu, þar með talið sjálfum sér.

Starfsfólk Öxarfjarðarskóla treystir því að nemendur kjósi að breyta rétt fremur en rangt, vegna þess að að þeir telji að annað sé ósamboðið virðingu sinni, en ekki sakir ótta við hegningu eða viðurlög. Það samrýmist það Uppbyggingarstefnunni og uppeldi til ábyrgðar. Þetta viðhorf leggur starfsfólki Öxarfjarðar­skóla jafn­framt þá skyldu á herðar að leggja sanngjarnt mat á breytni nemenda og láta skoðun sína í ljós. Það fagnar góðum verkum þeirra og ljúfmannlegri framkomu en sýnir andúð sína á meinstríðni, rudda­skap, frekju, hyskni og skemmdarfýsn, verði slíks vart. Umfram allt ber starfsfólkinu að hlúa að vinsemd, glað­værð og hjálp­semi hvenær sem færi gefst. Það er ófrávíkjanleg stefna skólans að nemendur geti treyst starfsfólkinu og leitað til þess þegar þeir þurfa á því að halda. Starfsfólk skólans er bundið fyllsta trúnaði um hvaðeina sem nemendur treysta því fyrir og sem það verður áskynja í starfi sínu. Þó ber að hafa í huga, að samkvæmt Barnaverndar­lögum gengur tilkynningar­skylda þeirra sem afskipti hafa af börnum fram­ar þagnarskyldu ef ætla má að velferð barns eða heilsu sé veruleg hætta búin.

Starfsfólki Öxarfjarðarskóla ber að hugleiða stöðu hvers barns sérstak­lega og leiðbeina því um þau atriði er betur mega fara með hliðsjón af stöðu þess og getu. Það gildir jafnt um félagslega stöðu þess í skólasamfélaginu og stöðu þess í námi. Líta ber á einstakl­ing­inn í heild sinni og minnast þess að öryggi og vellíðan á vinnustað er forsenda góðra vinnu­bragða. Starfsfólki Öxarfjarðar­skóla ber að gera miklar kröfur til hvers nemanda, en sníða jafnframt kröfurnar að þroska og getu hvers og eins.

Gagnkvæmt traust og virðing allra sem í skólanum starfa tryggir glaðan og frjálslegan skólaanda og hvetur nemendur og starfsmenn til að leggja sig fram í störfum sínum.

Efst í efnisyfirlit

Heimili og skóli

Til að tryggja farsælt nám og góða líðan hvers nemenda telur skólinn afar mikilvægt að eiga gott samstarf við heimili hans. Foreldrar þekkja börn sín betur en nokkur annar og eru í raun sérfræðingar í málum þeirra. Þeir gæta réttinda barna sinna í hvívetna og tala máli þeirra þegar þess gerist þörf. Starfsfólk Öxarfjarðar­skóla heitir því að taka ábend­ingum foreldra og nemenda um hvaðeina sem betur má fara með fullri vinsemd og í fullri alvöru. Hagsmunir barnsins eru sam­eigin­legt leiðar­hnoða for­eldra þess og starfs­manna skólans og í sameiningu móta þeir það umhverfi og þær leiðir sem því eru fyrir bestu. Heimili og skóli eru bandamenn og milli þeirra verð­ur að ríkja óskorað traust.

Foreldrar eru ævinlega aufúsugestir í skólanum og það er mikilvægt að þeir hafi sam­band við kennara og skólastjórnendur hvenær sem þeir telja þess þörf eða spurningar vakna. Við heitum jafnframt á foreldra að taka ábendingum skólans vel og hlúa að já­kvæðu viðhorfi barna sinna til skólans, starfsmanna hans, skólafélaga og eigin náms. Takist okkur að fella þekkingu og reynslu foreldra og starfsfólks í einn farveg, sköp­um við í sameiningu góðan skóla þar sem börn okkar og unglingar komast til farsæls þroska, sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta.

Efst í efnisyfirlit

Agi og umgengni

Samskiptahættir

Skólareglur og viðhorf til aga í Öxarfjarðarskóla mótast af þeim mannskilningi sem lýst er í skólastefnunni hér að framan. Starfsfólk Öxarfjarðarskóla treystir nemendum til góðra verka, jafnt í námi sem leik, og það leitast við að búa nemendum frjóan og farsælan vinnustað. Vinnustað, þar sem starfsmenn og eldri nemendur eru fyrirmynd yngri barna í öllu sem varðar ástundun, breytni og umgengni. Vinnustað, þar sem verk eru metin af sanngirni, góð og slæm, og einstaklingseinkenni og sérþarfir njóta réttlætis. Vinnu­stað, þar sem vinnugleði, samvisku­semi og starfsmetnaður ríkja. Vinnustað, þar sem ríkir kyrrð og friður en góðlátlegt skvaldur, söngur eða hlátur á lágu nótunum berst úr hverju horni í frítímum. Engar illdeilur eða meinstríðni. Engin slagsmál. Enginn ruddaskapur eða frekja. Engar óþarfar tilskipanir. Engar óþarfar reglur. Hvergi skammarkrókur, enginn refsivöndur. Starfsfólk Öxarfjarðarskóla kýs að líta á skólann sem gróðurhús fremur en verksmiðju og aðferðir við agastjórnun eru óaðskiljan­legur hluti þess uppeldisstarfs sem þar fer fram.

Skólinn getur því aðeins uppfyllt þessa skólasýn að allir sem að honum koma, börn jafnt sem fullorðnir, virði sameiginleg lífsgildi af frjálsum vilja og leitist við að lifa eftir þeim. Þessi lífsgildi má draga saman og kalla þau bestu mannasiði að viðbættri gullnu reglunni; að koma jafnan fram við náunga þinn eins og þú kýst að hann komi fram við þig. Takist að rótfesta þessi lífsgildi í hjarta hvers og eins þarf skólinn tæpast aðrar reglur.

Þeir samskipta- og umgengnishættir sem lýst er hér að ofan verða ekki til af sjálfu sér. Til þess verða allir starfsmenn að sameinast um verklag og viðbrögð við ósiðum á borð við áflog og ertni í frímínútum eða hlaup og gauragang í skólahúsinu, svo dæmi séu nefnd. Mikilvægt er að hafa í huga að skólatíminn er samfelldur, þó svo hann skiptist í kennslustundir og frí­mínútur, og að sömu umgengnisreglur gilda allan skóla­tímann. Það er sameiginlegt hlut­verk allra starfsmanna að fylgja eftir reglum um bestu hegðun allan skólatímann og skapa að­stæður sem gera slíka hegðun eðlilega, sjálfsagða og eftirsóknarverða. Hafa ber hugfast, að það er auð­veldara að breyta aðstæðum og umhverfi barna heldur en börnunum sjálfum, sem og að hegðun og framkoma barna ræðst að verulegu leyti af þeim aðstæðum sem við sköpum þeim.

Nemendur hafa oft mikla þörf fyrir að ræða sín hjartans mál við fullorðna. Starfsfólkið þarf þá að gefa sér tíma til að ræða við þá á jákvæðan hátt og sýna þeim og áhugamálum þeirra umhyggju og athygli. Ekkert erindi er svo smávægilegt að ekki þurfi að sinna því.

Efst í efnisyfirlit

 

Starfsagi

Eins og fram kemur í skólastefnunni er það stefna Öxarfjarðarskóla að nemendur axli vaxandi ábyrgð á eigin námi eftir því sem þroski þeirra og geta vex. Kennararnir, og þá einkum umsjónarkennarar hvers einstaklings eða námshóps, hafa að sjálfsögðu verkstjórnina á sinni hendi og þeim ber að sjá til þess að nemendur ræki skyldur sínar hvað námið varðar og að námsframvinda sé með eðlilegum hætti, að teknu tilliti til aldurs, þroska og getu hvers nem­anda. Það skiptir máli að nemandinn finni að til hans eru gerðar sanngjarnar kröfur og að verk hans eru tekin alvarlega.

Efst í efnisyfirlit

Agabrot

Allir menn eru skeikulir og ævi þeirra vörðuð mistökum. Flestum smávægilegum, öðrum þung­bærari og jafnvel óbætanlegum. Mistök eru því aðeins lærdómsrík að okkur takist að draga af þeim skynsamlegar ályktanir um okkur sjálf og afleiðingar gjörða okkar. Fyrsta stigið er að viðurkenna feimulaust fyrir sjálfum sér og jafnvel öðrum að mistök hafi átt sér stað. Annað stigið er að bæta fyrir mistökin eftir föngum. Þriðja stigið er að draga af þeim lærdóma um næsta skref. Verða betri og ábyrgari maður.

Efst í efnisyfirlit

Yfirsjónir

Yfirsjónir barna eru yfirleitt mistök; óhöpp eða fljótræðisverk, fremur en ásetningsbrot. Mikil­vægt er að gera skýran mun á þessu tvennu. Óhöpp og fljótræðisverk ber að nýta til að dýpka skilning nemenda á eigin viðbrögðum og annarra og til umræðna innan nemenda­hópsins. Leitast ber við að gera árekstra og óhöpp að leiðarsteinum á þroska­braut siðvits og félags­hæfni í stað þess að ala á sektarkennd og undanbrögðum. Umfram allt ber að forðast vítahring yfirsjóna og fordæmingar; að festa nokkurt barn í hlutverki syndasels sem allir reikna með að hagi sér ósæmilega. Smátt og smátt lærast þau sannindi að einstaklingurinn getur einungis breytt sjálfum sér til hins betra, en jafnframt að með því vísar hann samferðamönnum sínum og samfélaginu öllu á færa leið.

Í raun skipta upptök að árekstri og bakgrunnur hans afar litlu máli og verðskulda yfirleitt enga rekistefnu. Þess í stað er vert að skoða gjörðir einstakra þátttakenda; hvernig þeir brugðust við og unnu úr tilteknu vandamáli og hvað hefði mátt leysa með öðrum og farsælli hætti. Þá er nauð­synlegt að skoða atburðinn í ljósi þeirra megingilda sem við kjósum að hafa í heiðri fremur en að einblína á smávægilegar reglur. Stundum hentar best að ræða málin einslega við þá sem í hlut eiga. Í öðrum tilfellum henta umræður í stærri hópum betur, jafnvel með þátttöku allra nemenda. Oft gefst vel að fá nemendum sjálfum það verkefni að finna lausn á aðsteðjandi vandamáli og semja sín á milli um sanngjarnar leikreglur. Til að úrvinnsla af þessu tagi beri árangur þurfa nemendur að temja sér að gangast við og segja frá mistökum sínum og óhöppum, óttalausir við skammir og yfir­heyrslur, og vera jafnframt reiðubúnir að ræða þau af yfirvegun. Dagurinn í dag er senn að baki, með mistökum sínum. Það er morgun­dagurinn sem skiptir máli og allir dagar framtíðarinnar. Markviss úrvinnsla eins og hér hefur verið lýst byggir upp innri aga, þann aga sem best heldur þegar enginn sér til og reynst getur farsælt veganesti til æviloka og er í anda Uppbyggingarstefnunnar.

Efst í efnisyfirlit

Ásetningsbrot

Yfirveguð brot gegn megingildum skólasamfélagsins, brot á borð við ofbeldi, einelti, spell­virki og viðvarandi röskun á almannafriði, kalla hins vegar á tafarlaus viðurlög, andstætt yfirsjónum sem lýst hefur verið og sem nýttar eru til að rækta innri aga og ábyrgðar­tilfinningu. Úrskurðarvaldið liggur að sjálfsögðu hjá hinum fullorðnu og nem­endum ber að hlíta því, að virtum andmælarétti. Viðurlög og refsingar eru ill nauðsyn sem beita verður af spar­semi. Þær eru nauðvörn skólasamfélagsins en ónothæft tæki til mann­ræktar.

Efst í efnisyfirlit

Skólareglur

 • Verum tillitsöm og virðum hvert annað
 • Hjálpumst að við að skapa öruggt umhverfi í skólanum
 • Nýtum tímann okkar vel og virðum vinnufrið í kennslustundum
 • Verum ávallt stundvís í kennslustundir og skólabíl.
 • Göngum vel um eigur skólans og annarra.
 • Öll notkun tóbaks og hvers kyns vímuefna er stranglega bönnuð í skólanum, í nágrenni hans og  í ferðum á vegum skólans.
 • GSM símar eru hvorki leyfðir í skólanum né í íþróttahúsi.
 • Hvers kyns hluti, s.s eldfæri og hnífa sem beita má sem vopnum, er bannað að koma með í skólann.

Efst í efnisyfirlit

Viðurlög við brotum á skólareglum Öxarfjarðarskóla

Markmið agastjórnunar er að byggja nem­end­­ur upp en alls ekki að niðurlægja þá eða brenni­merkja. Brjóti nemandi gegn reglum skólans skal ávallt lögð áhersla á að leita leiða sem bæta hegðun hans og líðan. Viður­lög verða að hæfa brotinu og taka mið af að­stæð­um hvers nemanda fyrir sig. Aldrei má beita harðari úrræðum en nauðsynlegt er, samanber meðal­hófsreglu íslensks réttarfars, og ævinlega ber að virða réttindi barnsins eins og þeim er lýst í íslenskum lögum og alþjóð­legum sáttmálum. Þá skal þess jafnan gætt að leita samstarfs við foreldra eða for­ráða­­menn nemandans og gæta andmælaréttar þeirra sem málið varðar.

·     Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skólans, starfs­fólks eða skólafélaga sinna. Týni nemandi námsgögnum sem skólinn lánar honum eða valdi á þeim óeðlilegum skemmdum skal viðkomandi bæta tjónið. 
·     Brjóti nemandi af sér, skal umsjónarkennari, skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða sér­fróð­ur ráðgjafi ræða við nemandann um hegðun hans til þess að nemandi geri sér grein fyrir eðli brotsins og afleiðingum þess. 
·     Gerist nemandi sekur um mjög alvarlegt brot á skólareglum eða landslögum, hvar sem hann er staddur á vegum skólans, er skólanum heimilt að senda hann heim á kostnað forráðamanna sinna. 
·     Ef nemandi lætur sér ekki segjast, þrátt fyrir undangengnar viðvaranir og áminningar, er heimilt að vísa honum úr kennslu og láta hann fást við önnur verkefni það sem eftir lifir skóladags. Við beitingu slíkra viðurlaga skal tryggt að nemandi sé í umsjá starfs­manns á vegum skólans. Komi til brottvísunar sækir nemandinn ekki kennslustund hjá viðkomandi kennara fyrr en að afloknu við­tali. Umsjónarkennara skal gerð grein fyrir agabroti nemandans og skal hann láta forráðamann nemandans vita. 
·     Ef nemandi gerist sekur um mjög alvarleg eða síendurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum tímabundið úr skóla meðan leitað er lausna í málum hans. Tilkynna ber forráðamönnum og skólanefnd tafarlaust um ákvörðun skólayfirvalda. Takist skólastjóra ekki að leysa vanda nemanda innan skóla á viku vísar hann málinu til skólanefndar. Skólanefnd tekur málið til úrlausnar, útvegar nemandanum tafarlaust viðeigandi kennsluúrræði og beitir sér fyrir úrbótum í samráði við alla aðila málsins. Skólanefnd ber ábyrgð á að innan þriggja vikna frá brottvísun hafi nemanda verið tryggð skólavist. Takist enn ekki að leysa málið getur hvor aðili, forráðamenn eða skólanefnd, vísað ágreiningi til úrlausnar og úrskurðar menntamálaráðuneytisins.
 
Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta afls­munar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

Efst í efnisyfirlit

 

Skipulag náms og kennslu

 

Efst í efnisyfirlit

 

Hagnýtar upplýsingar

Símanúmer Öxarfjarðarskóla

Kennarastofa

465-2244

Netfang

lundur[hjá]kopasker.is

Netfang skólastjóra

gudrunsk[hjá]nordurthing.is

Skólastjóri

465-2246

Eldhús

465-2247

Íþróttahús og sundlaug

465-2248

Myndsími (fax)

465-2249

Leikskóladeild Kópaskeri

465-2405

Leikskóladeild Lundi

465-2344

Verkstjóri í áhaldahúsi

898-2180

 

Önnur símanúmer:

Sigurður Halldórsson, héraðslæknir

464-0640

 

Ragnhildur Þorgeirsdótttir, hjúkrunarfr.

464-0640

ragna[hjá]heilthing.is

 

Skólabílstjórar

 

Kristinn Rúnar Tryggvason

465-2353, 846-3835

Sigurður R. Tryggvason

465-2400, 820-4544

Bernharð Grímsson

465-2173, 853-4973, 893-8519 (v.s.)

Sigurður Yngvason

465-2265, 853-9240, 891-7311

 

Tímasetning rútuferða

 

 • Kristinn Rúnar fer frá Lóni kl. 7:45 alla daga
 • Sigurður Reynir fer frá Kópaskeri kl. 7:45 alla daga
 • Kristinn Rúnar og Sigurður fara kl 14:40 frá Lundi mánudaga og þriðjudaga; kl 15:50 miðvikudaga og fimmtudaga og
  kl. 12:00 á föstudögum.

 

 Reglur í skólabílum samþykktar af foreldraráði, bílstjórum og skólayfirvöldum.

 

 • Sýna ber samferðafólki kurteisi og tillitsemi
 • Nemendur skulu vera tilbúnir til að fara upp í skólabílinn þegar hann kemur á morgnana
 • Foreldrum ber að tilkynna skólabílstjóra forföll með góðum fyrirvara
 • Nemendur eiga alltaf að nota tiltæk öryggisbelti í skólabílnum
 • Skóla- og umgengnisreglur gilda einnig í skólabílnum
 • Sýna ber ítrustu aðgát þegar farið er í og úr skólabíl, einkum við götu eða þjóðveg
 • Endurskinsmerki eru sjálfsagt öryggisatriði í skammdeginu

 

Ófærð – afboðun skóla

 

Skólabílstjórar eru einir færir um að meta aðstæður hvað varðar færð á vegum vegna veðurs. Þeir koma skilaboðum til skólastjóra eins fljótt og unnt er til að hægt sé að afboða skóla sem fyrst þann dag.


 

Efst í efnisyfirlit

 

Skóladagatal

 

Efst í efnisyfirlit

 

Félags- og tómstundastarf

 

Efst í efnisyfirlit

 

Umhverfisstefna

 

Efst í efnisyfirlit

 

Forvarnir

 

Efst í efnisyfirlit

 

Tölvumál

 

Efst í efnisyfirlit

 

Mötuneyti

 

Efst í efnisyfirlit

 

Samstarfsaðilar

 

Efst í efnisyfirlit

 

Matá skólastarfi 2011-2012

 

Efst í efnisyfirlit

 

Hugmyndir að umbótaverkefnum 2011-2013

 

Efst í efnisyfirlit

 

Endurmenntunuaráætlun 2011-2012

 

Efst í efnisyfirlit

 

Skipulag námshópa

 

Efst í efnisyfirlit

 

Námsgreinar

 

Efst í efnisyfirlit


Svćđi

Tilkynningar

No item found

Öxarfjarđarskóli | Lundi | Öxarfirđi | sími: 465 2244 | fax: 465 2249 | lundur[hjá]kopasker.is