Námskrá

Námskrá Leikskóladeildar Öxarfjarđarskóla, Norđurţingi.  Efnisyfirlit   1.Inngangur 2.Hugmyndafrćđi 3.Markmiđ. 3.1.Ađ auka hreyfingu barna og ađ ţau lćri

 • Mynd 1

Námskrá

Námskrá Leikskóladeildar

Öxarfjarðarskóla, Norðurþingi. 

Efnisyfirlit
 
1.Inngangur
2.Hugmyndafræði
3.Markmið.
3.1.Að auka hreyfingu barna og að þau læri að njóta hennar
3.2.Að börnin kynnist og læri að virða náttúruna og umhverfi sitt, og njóta hvorutveggja
3.3.Að efla félagsfærni barnanna
4.Mat
5.Menningarlegar forsendur
6.Heimildir
 

1. Inngangur

Hlutverk námskrár leikskóladeildar Öxarfjarðarskóla er tvíþætt: Annars vegar er hún stjórntæki fyrir innra starf leikskólans og hins vegar veitir hún foreldrum upplýsingar um leikskólastarfið.
Þær ákvarðanir sem teknar eru í uppeldisstarfinu grundvallast á hugmyndum, gildismati og viðhorfi og hafa áhrif á gerðir okkar.1   
Talið er að námskráin og kennsluaðferðirnar í leikskólanum endurspegla þá mynd sem nemendur hafa af sér sem námsmönnum.2
 Í námskránni eru gerð skil á hugmyndafræði leikskólans, markmiðum, leiðum að markmiðum og námsaðferðum og námsgögnum. T.d. má líta á náttúruna og umhverfi leikskólans sem kjörið námsefni fyrir börnin.
 Einnig verður starfið metið með margvíslegum matsaðferðum bæði eigndlegum og megindlegum aðferðum. Notaðir verða spurningarlistar, viðtöl og vettvangsathuganir. Mat er ferli sem felur í sér kerfisbundna söfnun upplýsinga.3
Leikskóladeild Öxarfjarðarskóla starfar eftir lögum um leikskóla frá árinu 1994 (sjá vefslóð: www.althingi.is/lagas/nuna/1994078.html ) og samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 1999, gefin út af Menntamálaráðuneytinu (sjá vefslóð: http://menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar//nr/2010 )

1 Andri Ísaksson 1983 
2 Elsa Sigríður Jónsdóttir 2005. 
3 Steinunn Helga Lárusdóttir 2002.

2. Hugmyndafræði

Leikskóladeild Öxarfjarðarskóla starfar eftir kenningum bandarísks heimspekings og uppeldis-fræðings, John Dewey og kenningum sovjeska sálfræðingsins Lev S. Vygotsky.
Dewey taldi að félagslegar athafnir barnsins væru lykillinn að námsgreinunum. Frjáls leikur er hafður í hávegum, þar sem leikur er helsta námsleið barnsins. Efniviður leikskólans tengist umhverfi barnsins. Dewey taldi skólann vera samfélag í smækkaðri mynd, grundvallað á lýðræðislegum samskiptum. Virkja skal athafnaþörf og sköpunargáfu barnsins. Dewey taldi barnið fært um að læra af eigin reynslu og áhuga.
Að læra með því að framkvæma, eru einnkunnarorð í kenningum hans.4 Vygotsky setti fram kenningar um tengsl milli máls og hugsunar; að tungumálið væri aðalverkfæri hugans og um mikilvægi þess fyrir þróun hugsunar. Hann lýsir því hvernig maðurinn, í gegnum tákn túlkar og skilur umhverfi sitt, t.d. með hjálp tungumálsins. Vygotsky sagði að kennsla ýtti undir þroska og væri nauðsynleg fyrir hann. Samkvæmt kenningum Vygotsky er talið að drifkrafturinn sem ýtir undir þroska barna, komi utan frá og sé þess vegna fólginn í samskiptum við aðra. Hann taldi að hægt væri að ná barni af einu getustigi yfir á það næsta, með hjálp frá öðrum sem kunna meira.5 Þróun á þroskasviði vitsmuna á rætur að rekja til félagslegra samskipta. Hlutverk kennarans er að leiða börnin í þekkingarleit þeirra, þannig að börnin tengi reynslu sína við nýja uppgötvanir. Umhverfi barnanna þarf að vera skipulagt með tilliti til áhugasviða og þarfa þeirra. 

3. Markmið

1)      Að auka hreyfingu barna og að þau læri að njóta hennar.
2)      Að börnin kynnist og læri að virða náttúruna og umhverfi sitt, og njóta hvorutveggja.
3)      Að efla félagsfærni barnanna.
Þessi markmið tengjast menningu í samfélagi okkar. Við höfum aðgang að fjöru, mólendi, fjöllum, kjarrlendi. Melrakkaslétta og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum er í næsta nágrenni. Þannig getum við tengt öll markmiðin saman, að njóta hreyfingar og náttúru, og efla félagsfærni. Félagsleg samskipti eru forsenda þess að geta leikið með öðrum. Að ráða yfir ákveðinni færni til að taka þátt í félagslegum samskiptum má nefna félagsfærni.
Menning vísar til þess, hvernig fólk skynjar og skilur samfélagið sem það býr í, svo sem viðhorf, gildismat, trú o.fl. Umönnun, uppeldi og menntun er æskilegt að skoða í samhengi við samfélag og menningu, því þessir þættir hafa áhrif hver á annan. Menningaraðlögun fer fram í samskiptum barns við aðra, fjölskyldu sína, kennara og önnur börn. Leikskólinn hefur því mikil áhrif á menningu barns. Menningarmiðlun er í raun og veru hversdagslegir atburðir, byggðir á sögulegum forsendum, samfélaginu í dag og þátttakendum þess. Áhersla er lögð á mikilvægi virkni einstaklingsins í félagslegum samskiptum, samskiptum sem eru byggð á gagnkvæmri virkni, þar sem einstaklingurinn gefur eitthvað frá sér í samskiptum og tekur einnig á móti frá öðrum.6    
 
3.1. Að auka hreyfingu barna og að þau læri að njóta hennar.
            Þetta markmið er miklvægt fyrir börnin vegna þess að: „Börn hafa ríka þörf fyrir að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Í leikskóla ber því að leggja áherslu á hreyfingu barna og hreyfiuppeldi. Öll hreyfing stuðlar að andlegri og líkamlegri vellíðan . . . Hreyfing og útivera eru samtengdir þættir“. 7
Að taka hönd um heilsu barna er á ábyrgð hinna fullorðnu. Reynslan segir okkur að þeir sem snemma á ævinni hafa stundað útivist muni byrja aftur á því á fullorðinsárum, þótt þeir hafi haft áhuga á öðru sem unglingar.8  Börnin þurfa gott rými til að þau geti hreyft sig frjálslega, bæði í hreyfileikjum og með leikföng.
 
Leiðir að markmiðinu:
 • Að hafa fasta tíma í íþróttahúsi, það skapar öryggi og verður að vana eða hefð.
 • Að fara í móana og fjöruna gefur möguleika á fjölbreyttri hreyfingu.
 • Þar sem börnin eru á misjöfnum aldri, er hópnum stundum skipt í tvennt; þau eldri eiga kost á lengri gönguferðum heldur en þau yngri.
 • Að kenna börnum t.d hreyfileiki, því að í þeim má m.a. læra reglur og æfa félagslega færni.
 • Að ræða við börnin og kenna þeim ýmis hugtök til að átta sig á rými, fjarlægðum og áttum (málrækt).
 • Að æfa fínhreyfingar, samhæfingu augna og handa, t.d. þegar barnið vinnur að listsköpun. Í listsköpun ætlum við t.d. að láta börnin mála á mistóran pappír, ýmist á borði eða á trönum. Nota fína og grófa pensla til að æfa mismunandi fínar hreyfingar.
 • Að kynna fyrir börnunum íþróttagreinar sem starfsfólk getur ekki æft með þeim, með því að t.d að lesa íþróttasíður blaðanna og hinar ýmsu bækur, þannig tengist þetta námsvið einnig málrækt og málörvun.
 • Með því að nýta leiksvæði á nýjan hátt, er hægt að verða meira meðvitaður um hvaða möguleika leiksvæðið býður uppá. T.d. að vegasaltið verður að jafnvægisslá, dekkjarólur má nýta til að efla jafnvæisskyn með því að liggja á maganum eða bakinu í þeim og róla.
 • Fara með börnin í skóginn og klifra í trjám. Í fjörunni er hægt að stikla á steinum og ganga á rekaviðardrumbum til að æfa jafnvægi.
 • Nýta leikræna tjáningu.
 • Dansa við tónlist, syngja og hreyfa sig í takt við tónlistina.
3.2. Að börnin kynnist og læri að virða náttúruna og umhverfi sitt, og njóta hvorutveggja.
Þetta markmið er miklvægt fyrir börnin vegna þess að: „Lífsafkoma mannsins, líf hans og heilsa er háð náttúrunni og náttúruöflunum. Þekking á náttúrunni og fyrbærum hennar er því manninum lífsnauðsynleg“ 9 Nauðsynlegt er að kenna börnunum að læra að kynnast, virða og njóta náttúrunnar og umhverfi síns. Með því að kynnast nánasta umhverfi og því samfélagi sem barnið lifir í, lærir það einnig að þekkja menningu þess svæðis sem það býr við.10
 
Leiðir að markmiðinu:
 • Að fara í vettvangsferðir á öllum árstímum.
 • Nota mismunandi veður til gönguferða. 
 • Afla efniviðar í vettvangsferðum sem er svo nýttur í myndsköpun.
 • Börnin teikna myndir úr ferðunum (myndsköpun).
 • Skoða bækur sem fjalla um dýr, veðurfar, gróður og jarðfræði.
 • Fræða börnin um endurvinnslu t.d á pappír.
 • Lesa sögur og ljóð um náttúruna (málrækt).
 • Syngja með börnunum ýmiss lög um dýr, plöntur og náttúruna. 
 • Gera ýmsar tilraunir t.d. með vatn eða ræktun.
 • Nýta leikræna tjáningu.
 • Rifja upp og ræða við þau um það sem gert er (málrækt).
3.3. Að efla félagsfærni barnanna.
Þetta markmið er miklvægt fyrir börnin vegna þess að: „Börn búa við mismunandi uppeldisskilyrði, eru úr ólíkum fjölskyldugerðum og eru af ólíku bergi brotin. Ber leikskóla að . . . efla með því tilfinningu sérhvers barns fyrir því að það tilheyri samfélaginu og sé hluti af því“ .11  
Lífið í leikskólanum snýst að miklu leiti um samskipti. Þegar kemur að félagslegri færni og hæfileikanum til að eiga samskipti við aðra en sína nánustu, þá eru það samskipti við jafnaldra, sem talin eru hafa mest að segja.12  Ung börn læra með því að vera virk, með því að læra af eigin reynslu og í gengum samskipti við aðra.
Barnið þarf að fá jákvæð viðbrögð frá umhverfinu bæði öðrum börnum og fullorðnum, og skilaboð um að það sé einhvers virði til að geta byggt upp jákvæða sjálfsmynd.   Samhliða því sem barnið er háð umhverfi sínu þá er það einnig með í að hafa áhrif á viðbrögð hins fullorðna . Barnið er á þann hátt virkt í að skapa sína eigin sjálfsmynd, þetta er ákveðin víxlverkun.13 Þaðað geta sett sig í spor annara og hvernig því semur við önnur börn eru mikilvæg atriði.
Barnið er í eðli sínu félagsvera og það er því nauðsynlegt að vera í félagslegum samböndum. Í gegnum félagmótunina þróar barn hæfni til að tengjast öðrum jafnframt sem það þróar eigin sjálfsmynd.14
 
Leiðir að markmiðinu:
 • Að styðja við samskipti barna í leik þeirra.
 • Leikskólakennarinn þarf að vera fyrirmynd að æskilegri hegðun,
 • Að veita barninu öryggi, með því að hafa reglu á hlutunum, en samt sveiganleika.
 • Að leggja áherslu á að örva alla þroskaþætti barnsins.
 • Leikskólakennarinn þarf að vera þáttakandi/ eða styðjandi í leik barna án þess að vera beinn stjórnandi.
 • Leikskólakennarinn þarf að gefa börnunum tækifæri til að leysa eigin vandamál.
4 Dewey 1994. 
5 Lillemyr 2001. 
6 Sommer 1997. 
7 Aðalnámskra leikskóla 1999. 
8 Stortingsmelding 2004.
9og 10Aðalnámskrá leikskóla 1999.
11Aðalnámskrá leikskóla 1999. 
12 og 14 Broström 1998. 
13 Bae 1996.

4. Mat

Til að meta hvort barnið hefur tekið framförum í félagsþroska, þarf matið að vera að vera að einhverju leyti huglægt, eigindlegt. Hægt er að skrá niður eftir myndbandsupptöku og meta leik barnsins og þátttöku þess í leik ásamt félagslegum samskiptum þess yfir ákveðið tímabil. Einnig er gott að styðjast við dagbók. Hægt er að vera með eigindlegt mat til að meta hvenær og hvort þau njóti þess að vinna með náttúruna, dýr, plöntur, veðurfar o.s.fr. Skrá þarf niður eftir myndbandsupptökur og samtöl við börnin í vettvangsferðum. Með skráningu á myndbandsupptöku er t.d. hægt að meta hvort kennarinn sé virkur, hvort börnin njóti þess sem verið er að gera og hvernig þau læra.
Með gátlistum er hægt að meta framfarir í t.d. hreyfiþroska.
Matið á að sýna ferlið og afurðina og vera kennurunum til leiðsagnar um áframhaldandi vinnu. Þ.e. hverju þarf að breyta og hvað má endurtaka óbreytt.
            Helstu námssvið leikskóla er: Hreyfing, málrækt, myndsköðun, tónlist, náttúra og umhverfi, menning og samfélag. Námsviðin skarast og þó að áhersla sé lögð á hreyfingu, náttúru og umhverfi í námskrá Krílakots tengjast leiðirnar öllum hinum námsviðunum t.d hreyfing og tónlist, hreyfing og málörvun o.s.frv.
 

5. Menningarlegar forsendur

            Leikskólinn Krílakot var stofnaður 1985. Í fyrstu var hann rekinn af foreldrum en um 1990 tók sveitarfélagið við rekstri hans. Leikskólinn í Lundi var stofnaður 1993. Deildirnar voru sameinaður undir eina stjórn 2003.
Kópaskersdeildin er staðsett í litlu þorpi sem byggðist upp sem þjónustukjarni fyrir nærliggjandi sveitir. Löng strandlengja umlykur þorpið á tvo vegu og er fjöruborðið misjafnt, allt frá svörtum sandi, upp í stórgrýti. Deildinn í Lundi er staðsett í kjarrivöxnu landi og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfri er í næsta nágrenni. Allt þetta hefur áhrif á samræður, viðmið og hugsunarhátt þeirra íbúa sem á svæðinu búa. Leikskólinn er í húsnæði grunnskólans á báðum stöðum.
Hlutverk leikskólans er að þróa hæfni barna í menningarlegri „skráningu“. Það er að börnin geti tekið á móti boðum og upplýsingum (merkjum) frá umhverfinu, skilið þau og gert þau að sínum. Barnið hefur samskipti við önnur börn og fullorðna og hinir fullorðnu geta skapað aðstæður þar sem barnið upplifir ýmsa þætti, sem hafa áhrif á það, einnig hefur barnið áhrif á sitt umhverfi.
          Leikskólinn hóf árið 1992 samstarf við grunnskólan um verkefnið „Brúum bilið“ og hefur það staðið óslitið síðan. Markmiðið er að skapa samfellu í starfi skólana, og að börnunum líði vel þegar þau flyttjast á milli skólastiga.
Öxarfjarðarskóli er í dag heildstæður skóli þar sem grunnskóladeild og leikskóladeild eru ein heild í skólanum. Grunnskóladeild Öxarfjarðarskóla er staðsett í Lundi ásamt leikskóladeild. Önnur leikskóladeild Öxarfjarðarskóla er starfandi á Kópaskeri.

6. Heimildir

 
Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.
 
Andri Ísaksson. 1983. „Námskrárgerð og námskrárfræði“ Athöfn og orð, bls.25-44. Mál og Menning, Reykjavík.
 
Bae, Berit. 1996. „Voksnes definisjonsmakt og barns selvopplevelse.“ Det interessante i det alminnelige, bls. 145-165. Pedagogisk Forum, Oslo.
 
Broström, Stig. 1998. Social kompetence og samvær. Vi er venner ik´? bls. 18-62 og 113-119. Forlaget Systime A/S, Århus.
 
Dewey, John. Hugsun og menntun. 1994. Tilraunaútgáfa. Gunnar Ragnarsson íslenskaði. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
 
Elsa Sigríður Jónsdóttir. 2005. Kennslubréf og glærur, 1. febrúar. Leikskóli fyrir alla 25.01.42. Kennaraháskóli Íslands.
 
Moen, Ellen og Arne Sivertsen. 1999. 6. útgáfa. Skritt for skritt. Vett og Viten AS, Norge.
 
Lillemyr, Ole Fredrik. 2001. Lek på alvor. 2. útg. Universitetsforlaget, Oslo.
 
Rønning, Grethe Steen. 1996. Rammeplan for barnehagen, hva så? Kaflar 2, 8, 9, 10. Høyskoleforlaget AS, Kristiansand.
 
Sommer, Dion. 1997. Barndomspsykologi. Utvikling i en forandret verden, bls.66-91. Pedagogisk Forum, Oslo.
 
Steinunn Helga Lárusdóttir 2002. Mat á skólastarfi. Handbók fyrir skóla. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.
 
Stortingsmelding nr. 39 (2000-2001). 2004, 7. febrúar. „Friluftsliv.“ Vefslóð: http://odin.dep.no/md/norsk/publ/stmeld/022001-040009/index-hov004-b-n-a.html

Svćđi

Tilkynningar

No item found

Öxarfjarđarskóli | Lundi | Öxarfirđi | sími: 465 2244 |  Jákvćđni - vinátta - virđing