Fréttakorn frá Öxarfjarðarskóla nr. 4

Þá er komið að því eina ferðina enn. Fréttakorn fjögur hefur fæðst, þó manni finnist það síðasta hafa farið út í gær. Smellið á lesa meira til að sjá pistilinn.

Haustgleði

Jóhanna Margrét stóð sig með prýði sem kynnir kvöldsinsÞó að vetur konungur sé aðeins farinn að láta á sér kræla, ákváðum við að halda aðeins lengur í haustið og halda haustgleði sem var haldin hátíðleg fimmtudaginn 13. nóvember s.l. og var þemað í ár “Draugar”. 

Þar var voru kræsingar á borð bornar eins og venjan er og í þetta sinn var boðið upp á fiskisúpu og brauð í forrétt, lambakjöt og tilheyrandi í aðalrétt og síðast en ekki síst súkkulaðiköku með þeyttum rjóma og kaffi.  Óhætt er að Gestir að fá sér af hlaðborðinusegja að allir lögðu sig fram um að gera þessa skemmtun sem best úr garði enda voru viðtökur góðar.  Yfirkokkar voru Kristjana Erna og Anna Englund sem stjórnuðu aðstoðarkokkum sínum af mikilli snilld. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framlagið.

Skemmtiefnið var í höndum unglingadeildar sem hafa veg og vanda að þessum hátíðum enda fer ágóðinn í ferðasjóð þeirra.  Sýndar voru tvær stuttmyndir sem þau höfðu gert, hljóðfæraleikur  og lesnar upp draugasögur sem tengjast sveitunum í kring.  Þá voru fyrripartar á borðunum og fólk beðið að botna þau og hér eru nokkrir botnar sem litu dagsins ljós:

 

Þessar skottur tóku á móti gestum í­ myrkrinuFyrriparturinn var svona:

Læðist yfir dimman dal

Draugur, skrefum hljóðum

 

Hér er sýnishorn af “botnum”

 

mætir hér í matarsal

með afturgöngum óðum

 

öllum mínum auði stal

æru minni og sjóðum

 

að hrella og hræða er hans val

og hrolli veldum óðum

 

betra er að borða í þessum sal

en berjast í tómum sjóðum

 

Segið svo að við eigum ekki nóg af hagyrðingum hér um slóðir og sumir hafa greinilega aðeins litast af kreppunni illræmdu! 

 

Okkur langar að koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem sýndu okkur stuðning með því að eiga kvöldstund með okkur, sem og þeim sem studdu okkur með fjárframlögum eða vörum til að gera veisluna sem glæsilegasta.

 

Dagur íslenskrar tungu

Yngri deildinÍ gær héldum við Dag íslenskrar tungu hátíðlegan.  Allir nemendur skólans taka þátt í þessum degi með einum eða öðrum hætti.  Við byrjuðum á því að syngja ljóð Þórarins Eldjárns “Að gæta hennar gildir hér og nú...”. 

Yngri deildin fræddi okkur um Astrid Lindgren og sagði okkur frá prakkaranum Emil sem er sífellt að gera eitthvað af sér, þó hann meini ekkert illt með því. 

Miðdeildin var með bókmenntagagnrýni og þau tóku líka Miðdeildinþátt í nýyrðasamkeppni á vegum Námsgagnastofnunar og fundu ný íslensk orð yfir erlend heiti á ýmsum hlutum eins og  mixer trampólín, boost, mp3, buff og leggings.  Við eigum svo sannarlega efnilega nýyrðasmiði innan okkar raða sem eflaust eiga eftir að láta að sér kveða í framtíðinni.

Nemendur 8. bekkjar voru með mannlýsingar og samtöl sem innihéldu kjarnyrt og gott íslenskt mál. 

Nemendur í 9. og 10. bekkjum kynnti bókmenntaverkefni sem þau eru að vinna að út frá bókinni Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason.  Þau vinna umhverfi sögunnar á stóran maskínupappír, búa til persónur sögunnar og setja inn í umhverfið.

 

Skólaheimsókn á Kópasker

Yngri deildinni var boðið í skólaheimsókn á Kópasker fyrir viku, sl mánudag.  Þar var vel tekið á móti þeim, líf og fjör, nemendur spiluðu, spjölluðu, horfðu á mynd og fengu sér gos og snakk.

 

Stærðfræði

Ann-Charlotte er búin að vera dugleg að tengja námið sitt inn í kennsluna en hún er á stærðfræðikjörsviði í kennaranáminu. Má þar nefna rúmfræðiverkefni eins og mjólkurfernuhúsið sem sagt var frá í síðasta pistli. Hún hefur líka verið að kynna nemendum forritið GeoGebra sem er margverðlaunað forrit til að nota við rúmfræðikennslu, en það nýtist einnig við ýmsa aðra stærðfræði. Nemendur í miðdeild bjuggu til þessi rúmfræðiform sem sjást hér á myndinni.

 

Framundan

  • Samskólamótið verður haldið á Vopnafirði n.k. föstudag fyrir nemendur 7. – 10. bekkja. Upplýsingar verða sendar í tölvupósti til foreldra.
  • Fundur með foreldrum unglingadeildarnemenda í Lundi miðvikudagskvöldið 19.nóvember kl. 20.00
  • Okkur langar að biðja fólk um að safna kertaafgöngum og koma til okkar í skólann. Til stendur að ráðast í kertagerð úr afgöngunum fyrir jólin.

Smellið á viðkomandi tengil til að skoða fleiri myndir frá haustgleði og degi íslenskrar tungu.