Fréttakorn frá Öxarfjarðarskóla nr.2

Hafinn er heildstæður skóli!
Síðastliðinn miðvikudag 1. október hófst fyrsti dagur heildstæðs skóla. Gaman er að segja frá því að tómstundastarfið fór afar vel af stað. Mikill áhugi er á björgunarsveitastarfinu og hafa nú þegar 17 nemendur skráð sig í það. Flestir af yngri kynslóðinni fara í fimleika og nokkrir nýttu sér heimanámsaðstoðina, bæði á miðvikudegi og fimmtudegi. Á þriðjudögum eigum við svo von á fótboltaþjálfurum frá Völsungi með æfingu.
Leikskólinn og yngri deild
Nú hefur leikskólinn fengið fasta íþróttatíma á fimmtudögum í sína stundatöflu undir stjórn Þorsteins og fyrsti tíminn var sl. fimmtudag. Settar voru upp ýmsar þrautir í íþróttasalnum þar sem reyndi á börnin. Mikil kátína var meðal þeirra þegar þau fengu að hlaupa frjálst um salinn og að glíma við mismunandi verkefni.
 
Þrjár stúlkur úr 10. bekk hafa valið að fara á leikskóla sem valfag. Þar taka þær þátt í og kynnast starfi leikskólans undir stjórn Elísabethar, m.a að vera til aðstoðar í íþróttatímum leikskólabarna. Þá hafa tveir nemendur valið að fara í meistaraval á leikskóla í tómstundum í heildstæðum skóla. Það var gaman að líta inn hjá þeim sl. fimmtudag þar sem meistarinn var með sögustund og stjórnaði m.a. söng hjá yngstu kynslóðinni þar sem þau deildu stofu með yngstu deild grunnskólans. Mikið líf og fjör!
 
Margt hefur drifið á daga yngri deildar undanfarnar tvær vikur. Björn Leifsson kom inn með kynningu á blásturshljóðfærum; blokkflautu, flautu og þverflautu og voru María Dís og Þórdís Alda honum til aðstoðar. Það er ánægjulegt að segja frá því að frá og með miðvikudeginum 8. október verður nemendum í yngri deild boðið upp á blokkflautukennslu á vegum tónlistarskólans þeim að kostnaðarlausu og verða þeir tímar fastir inni á miðvikudögum.
Nemendur í 4. bekk tóku þátt í teiknisamkeppni vegna Alþjóðlega skólamjólkurdagsins og verður spennandi að sjá hvernig það fer. 
 
Miðdeild og unglingadeild
Í síðustu og þar síðustu viku fóru öll stig skólans í Akurgerði að frumkvæði Önnu heimilisfræðikennara, þó allir á sitthverjum deginum. Hófst skóladagurinn á því að útbúa kakó og deig sem síðar átti að elda í skóginum. Þegar komið var í Akurgerði var nemendum skipt í hópa og farið var í ýmsa leiki. Leikir þessir voru allir tengdir námsgreinum úr skólanum og segja má að þau hafi farið í náttúrufræði, íþróttir, heimilisfræði og íslensku.
Um hádegi var kominn tími til að kveikja upp eld þar sem grillaðar voru pylsur og brauð sem skolað var niður með dýrindis kakói. Að þessu loknu var haldið aftur í Lund og voru allir mjög ánægðir með skemmtilegan dag. Hér er hægt að skoða myndir úr Akurgerði.
 
Foreldrafulltrúar Öxarfjarðarskóla
Nú er loksins ljóst hverjir eru foreldrafulltrúar og tengiliðir Öxarfjarðarskóla en það eru: Gunnar Björnsson fyrir yngsta stig, Aðalsteinn Örn Snæþórsson fyrir miðstig, Olga Gísladóttir fyrir 8.-9. bekk og Kristjana Erna Helgadóttir fyrir 10. bekk. Við kennarar hlökkum að sjálfsögðu til samstarfs við þetta ágæta fólk!
Hrund