Fréttakorn Öxarfjarðarskóla

Nú heilsar fréttabréf nr. 2 á þessu ári og kominn tími til!

 

Ýmislegt hefur á daga okkar drifið að undanförnu og ætlum við að gera því nokkur skil í hér að neðan

Leikskóladeild

Það er mikið líf í leikskólabörnum og jafnan ríkir mikil tilhlökkun þegar fimmtudagarnir renna upp því þá eru íþróttir sem þeim finnst afskaplega spennandi, ýmsar þrautabrautir í íþróttasalnum og mikil gleði. Það sem helst hefur verið á döfinni hjá þeim er bakstur, dótadagur, bókadagur og mikil útivera.

 

Bekkjarheimsókn – Miðdeild

Miðdeildinni var boðið í bekkjarheimsókn út á Kópasker að loknum hefðbundnum skóla 2. febrúar sl. Þar var vel tekið á móti okkur með kökum og tilheyrandi. Eftir að allir höfðu fengið sér létta hressingu var haldið út í íþróttahúsið og farið var í leiki sem gestgjafarnir höfðu skipulagt.

Síðan var haldið að nýju yfir í skólann þar sem farið var í ýmsa leiki. Má þar nefna skyrát, kanelát og eggjahlaup.

Krakkarnir voru alveg til fyrirmyndar og skemmtu allir sér ljómandi vel og kunnum við gestgjöfum okkar á Kópaskeri bestu þakkir.

Útikennsla hjá 8.bekk

Þriðjudaginn 20. janúar fór 8. bekkur ásamt þeim Önnu og Steina í góða ferð um Skinnastaðahæð. Fyrsti tími fór í undirbúning þar sem hrært var í lummudeig og hádegismaturinn undirbúinn en þetta átti síðan eftir að elda við opinn eld og á prímusum.

Lagt var af stað strax eftir morgunmat og hófst ferðin á því að hópurinn þurfti með aðstoð áttavita og korts að finna eldiviðarsekk svo hægt væri að kveikja upp eld síðar. Gekk það vel og voru það því þungklyfjaðir krakkar ásamt kennurum sem gengu upp Skinnastaðahæðina. Þegar hópurinn hafði fundið sér álitlegan stað var farið í nokkra leiki og að því loknu var hafist handa við að undirbúa fyrir eldamennskuna. Það þurfti að kveikja upp eld, útbúa svæði þar sem hægt var að sitja og matast og á meðan voru prímusarnir notaðir til að hita vatn í kakó. Eftir matinn var gengið til baka og um kl. 13.00 kom ánægður en jafnframt þreyttur hópur í Lund. Dagurinn tókst ljómandi vel og voru allir ánægðir með ferðina.

Vonandi munu koma fleiri tækifæri til að hafa svona daga þar sem mörgum námsgreinum er blandað saman og kennslan fer fram utan hefðbundinna kennslustofa.

Myndir eru hér

 

112 dagurinn

Yngsta deildin var mjög ánægð með kynningunaÞann 11. febrúar var einn – einn – tveir dagurinn. Rauði krossinn tók að sér að kynna daginn í grunnskólum. Kiddi og Steini fóru í bekkjardeildir og sáu um kynningu á Neyðarlínunni og þeim aðilum sem að henni koma. Krakkarnir voru mjög áhugasamir og var sérstaklega gaman að því hvað yngsta deildin var áhugasöm. Þau spurðu mikið og fræddust um hvernig ætti að bregðast við nokkrum algengum slysatilfellum, eins og hvernig ætti að ná aðskotahlut upp úr öndunarvegi og hvernig ætti að bregðast við brunasárum og blæðingu úr nefi.

 
Unglingadeild

Loksins höfum við tekið ákvörðun um val á leikriti sem á að sýna á árshátíðinni í byrjun apríl og er það söngleikurinn Grease sem varð fyrir valinu. Við munum nýta marsmánuð til æfinga og þurfum alveg örugglega eitthvað að leita til foreldra varðandi undirbúining.

Nemendur í 9. og 10. bekk eru í óða önn að skipuleggja fjáraflanir vegna fyrirhugaðrar Danmerkurferðar í vor. Áætlað er að fara vikuna 8. - 12. júní og ljóst er að við þurfum að vera dugleg að safna vegna mikilla verðhækkana. Meðal þess sem ákveðið hefur verið að gera fyrir utan dósa og flöskusöfnun varr sala á bollum fyrir bolludaginn, bæði í versluninni Ásbyrgi og einnig í versluninni Bakka. Þá er á döfinni að halda bingó 7. mars og verða þar veglegir vinningar í boði. Einnig stendur til að vera með félagsvist, en það kemur nánar um það seinna Við viljum koma á framfæri þakklæti fyrir góðar viðtökur og velvilja í okkar garð.

 

Tómstundir í heildstæðum skóla

Í síðasta fréttakorni sögðum við frá því að vegna niðurskurðar gætum við ekki lengur boðið upp á fótboltaæfingar á fimmtudögum. Við vorum svo heppin að fá Árna Sigurðsson frá Presthólum til liðs við okkur í nokkur skipti en síðan mun Stefán í Klifshaga taka við. Voru fótboltahetjurnar í skólanum að sjálfsögðu afar ánægðar að þurfa ekki að hætta.

Nú er Stefán Leifur mættur aftur með matreiðslu fyrir stelpurnar í unglingadeild og er skemmst frá því að segja að 13 stelpur skráðu sig þannig að við þurfum að tvískipta hópnum! Það er svo sannarlega mikill matreiðsluáhugi í skólanum og mjög nauðsynlegt fyrir kokka framtíðarinnar að kunna eitthvað fyrir sér í þeim efnum.
Eins og áður sagði ætlum við að nýta okkur marsmánuð til leikæfinga og verðum þá með hópa í tómstundatímunum á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum
 

Nýr “meðlimur” í kennarahópinn

Þær ánægjulegu fréttir bárust okkur 2. febrúar sl. að Ann-Charlotte og Hafsteinn væru búin að eignast son. Við óskum þeim innilega til hamingju með drenginn og vonum að þar sé nýtt kennaraefni á ferðinni J

 
Námsmat

Það stóð til að senda námsmatið heim með nemendum í lok janúar. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna gátum við ekki sent það út fyrr en í síðustu viku.

 
Framundan

Í næstunni er ýmislegt á döfinni og má þar nefna öskudaginn sem hefur nú þegar verið skipulagður. Við ætlum að fara saman á Kópasker og syngja þar í fyrirtækjum og enda daginn á balli í Pakkhúsinu þar sem kötturinn verður einnig sleginn úr tunnunni.

Magnús Stefánsson frá Maríta fræðslunni kemur með forvarnarfræðslu fyrir unglinga (8. – 10. bekk) fimmtudaginn 26. febrúar og um kvöldið kl. 17:00 verður fyrirlestur fyrir foreldra. Við hvetjum foreldra til að mæta.Heimasíða Maríta fræðslunnar er á slóðinni: http://marita.is/. Það er sóknarnefnd Garðssóknar sem styrkir þennan fyrirlestur og við erum afar þakklát fyrir það.
 

Starfsdagur verður föstudaginn 27. febrúar og enginn skóli. Athugið að samkvæmt fyrsta skóladagatali áttu starfsdagarnir að vera tveir en annar þeirra var tekinn í september. Foreldrasamtöl verða í mars en auglýst síðar.

 
Bestu kveðjur úr Öxarfjarðarskóla,
Hrund