Haustgleði

Ke klædd samkvæmt hátískunniFimmtudagskvöldið sl. hélt Öxarfjarðarskóli haustgleði. Þetta er orðin árlegur viðburður, sem hófst með vorgleði en vegna ýmissa anna á vorin var ákveðið að flytja viðburðinn yfir á haustið. Það eru nemendur í unglingadeild ásamt 7. bekk sem bera hitann og þungann af undirbúningi og utanumhaldi á þessari skemmtun og er þetta liður í þeirra fjáröflun. Einnig hafa kennarar stutt duglega við bakið á þeim. 

Auglýsingum hefur verið dreift á póstburðarsvæðið frá Kelduhverfi og út á Sléttu og gaman að sjá hversu margir koma sem ekki eiga börn í skólanum. Þátttaka hefur vaxið á hverju ári og í ár var þéttsetinn matsalurinn í Lundi. 

Í boði hefur verið veislumatur sem Guðmundur Magnússon hefur séð um af sinni alkunnu snilld. Nemendur hafa aðstoðað hann við eldamennskuna, sjá um að þjóna til borðs, vaska upp og ganga frá. Auk þess sjá þau um skemmtiatriði á meðan á borðhaldi stendur.

Að þessu sinni var þema kvöldsins 9. áratugurinn eða eighties upp á enskuna. Mikið var haft fyrir að hafa upp á fatnaði og munum frá því tímabili og einnig voru skreytingar í anda tímabilsins. Nemendur og kennarar klæddu sig upp í stíl 9. áratugarins og nemendur voru með tískusýningu þar sem sýnd var hátíska þessara ára. Nemendur 7. bekkjar komu fram og stældu fyrsta framlag Íslands til Eurovision, Gleðibankann. Hljómsveitirnir tvær sem orðið hafa til í hljómsveitarvali komu fram í fyrsta sinn og fluttu nokkur lög. Heppnaðist kvöldið mjög vel og skemmtu bæði nemendur og gestir sér vel.

Við viljum þakka öllum styrktaraðilum okkar og einnig gestunum sem borguðu sig inn.

Skoða myndir frá kvöldinu