Jólaföndur, tækniþema o.fl

Í dag var jólaföndurdagur í skólanum fyrir leik- og grunnskóladeildir. Hefð er fyrir því að nemendur og foreldrar, ömmur og afar, jafnvel frænkur og frændur komi föndri saman eftir hádegið. Þetta var notaleg stund með jólatónlist í hverri stofu og gaman að fá "gamla" nemendur - já jafnvel enn eldri sem nú eiga börn í skóla og leikskóla -  koma í heimsókn.  Í lokin buðu matráðar upp á kaffi og kökur sem gladdi mannskapinn.
Yngri deild fékk heimsókn frá Slökkviliði Húsavíkur í dag og var gaman að sjá gamla kennarann okkar, Kristján Inga Jónsson, koma í öðru hlutverki sem aðalvarðstjóri slökkviliðsins og fræða nemendur um eldvarnir.  
Í dag hófst ný þemalota hjá nemendum. Yngri börnin eru komin í alls kyns jólaverkefni en miðdeild og eldri deild hófu tækniþemavinnu en við höfum fengið að láni alls kyns tæknibúnað hjá Þekkingarneti Þingeyinga og Stem á Húsavík. Það voru áhugasamir nemendur sem tóku til við að kynna sér það sem í boði var og voru þau ótrúlega fljót að læra með því að vafra sjálf á netinu og finna út hvernig hlutirnir virka.  Ætlunin að þau kynni hvert sitt viðfangsefni og séu fær um að kenna þeim sem yngri eru.

Yngri deild hefur verið að lesa bókina Jólaleg jól um Kugg í byrjendalæsi þar sem amma var skreytt eins og jólatré. Nemendur tóku sig til og skreyttu Jenny kennara eins og gert hafði verið við ömmu í bókinni: 

Nemendur fengu endurskinsborða að gjöf frá slökkviliðinu.