Litlu jól og föndurdagur

Í gær var föndurdagur í báðum deildum þar sem nemendur og kennarar föndruðu jólaföndur. Einnig kom þó nokkuð af foreldrum í heimsókn. Í dag voru svo litlu jólin haldin hátíðleg eftir hádegi í báðum deildum skólans.

Í Lundi borðuðu starfsfólk, nemendur og leikskólabörn saman hátíðarmat og á eftir var ýmislegt fert til skemmtunar, s.s. pakkapúkk, sungin jólalög og gengið í kringum jólatré. Var mikil sönggleði hjá nemendum en Sigurður Tryggvason lék undir á harmonikkuna.

Á Kópaskeri fluttu nemendur 5.-7. bekkjar frumsamið leikrit á ensku sem þau höfðu sjálf samið og dönskunemendur sögðu nokkra brandara á dönsku. Foreldrum var boðið að koma og horfa á atriðin og komu þó nokkrir og höfðu gaman af. Síðan voru sungin nokkur jólalög við undirleik Björns Leifssonar. Að lokum tók við hefðbundin dagskrá, jólasaga, pakkapúkk og kökuveisla og bíó.

Leikskólabörn á Kópaskeri héldu sín litlu jól í morgun. Þau voru svo heppin að til þeirra villtust tveir jólasveinar, all úfnir, en þeir höfðu ætlað í jólaklippingu til Rannveigar. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að hún var flutt svo þeir komu við í skólanum og heilsuðu upp á leikskólabörnin. Þessir sveinar hétu Hurðaaskellir og Skyrgámur og þeir gáfu börnunum mandarínur og saltkringlur og súkkulaðibita í poka. Á leiðinni út heilsuðu þeir upp á grunnskólabörnin og færðu þeim epli.

Myndir frá föndurdegi

Myndir frá litlu jólum

Litlu jól í leikskólanum

Bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár