Tónleikar á Kópaskeri

Djasskvartett ReykjavíkurNú er nýlokið frábærum tónleikum, þar sem Djasskvartett Reykjavíkur spiluðu fyrir nemendur, starfsfólk og nokkra foreldra skólans. Koma þeirra hingað er liður í verkefninu Tónlist fyrír alla. Tónlist fyrir alla er samstarfsverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga sem hefur staðið í um 15 ár. Tilgangur verkefnisins er að kynna íslenskum grunnskólabörnum ólíkar tegundir tónlistar sem þau njóta í flutningi frábærra íslenskra tónlistarmanna.

Tónleikarnir stóðu yfir í tæpa klukkustund og héldu tónlistarmennirnir áhorfendum við efnið allan tímann með líflegum flutningi og framkomu, auk þess sem áhorfendur sungu með í nokkrum lögum. Dagskráin var mjög skemmtileg hjá þeim og var ekki annað að heyra en almenn ánægja hafi verið með tónleikana, bæði hjá ungum sem öldnum.

Djasskvartett Reykjavíkur skipa þeir Sigurður Flosason, sem spilaði á saxófón ásamt því að kynna og leiða áhorfendur áfram á milli laga. Gunnlaugur Briem spilaði á trommur og slagverk, Tómas R. Einarsson spilaði á bassa og Eyþór Gunnarsson spilaði á píanó og bongótrommur.

Það var lista- og menningarsjóður Norðurþings sem bauð upp á tónleikana.

Myndir frá tónleikunum eru hér.