Ýmsar fréttir frá Öxarfjarðarskóla

Ýmislegt hefur verið að gerast í Öxarfjarðarskóla síðasta mánuðinn þó ekki mikið hafi borið á því hér á heimasíðunni. Verður það að skrifast á annríki umsjónarmanns. En nú eru komnar myndir inn á vefinn af því helsta sem á daga okkar hefur drifið.
Smellið á Lesa meira til að lesa nánar um það sem hefur verið á döfinni.

Í upphafi mánaðarins fóru fram æfingar og undirbúningur fyrir stóru upplestrarkeppnina sem haldin var á Raufarhöfn þann 8. mars. Þangað mættu fulltrúar úr sjöundu bekkjum skólanna hér í norðursýslunni og reyndu með sér í upplestri.
Undakeppni Öxarfjarðarskóla fór fram í skólahúsinu á Kópaskeri þann 7. mars. Í dómnefnd voru Óli Björn Einarsson, Björn Leifsson og
Erla Dögg Guðmundsdóttir. Í úrslit komust Hafþór Ingi, Jónína Kristín og Sylvía Dröfn. Hafþór vildi ekki gefa kost á því að keppa á Raufarhöfn, þannig að í samráði við Sigurð Aðalgeirsson, sem jafnan hefur haldið utan um kepnnina á Raufarhöfn, var ákveðið að senda alla hina fjóra nemendur 7. bekkjar. Þau stóðu sig öll með prýði og var dómnefnd ekki öfundsverð að því að þurfa að gera upp á milli allra keppenda. Öxarfjarðarskóli átti nemanda í verðlaunasæti að venju, en Arnar Þór Geirsson hreppti 3. sætið. Í 1. sæti var stúlka frá Þórshöfn og í 2. sæti stúlka frá Raufarhöfn.

Á vegum félagsmiðstöðvar var haldið freestyle námskeið eitt miðvikudagseftirmiðdegi í Lundi. Sara Stefánsdóttir, fyrrverandi nemandi skólans hafði samband og bauðst til að koma og kenna nokkur spor ásamt vinkonu sinni, en þær hafa verið að læra í vetur á Húsavík.
Þann 16. mars var svo gistikvöld hjá 7.-10. bekk í Lundi.
Það tókst mjög vel og var nokkuð almenn ánægja með daginn. Reyndar var það ekki nema um þriðjungur nemenda sem lagði á sig að gista um nóttina, en þeir voru lesnir í svefn með draugasögum úr safni Jóns Árnasonar. Má með sanni segja að unglingarnir okkar hér séu til fyrirmyndar.

Gönguskíðanámskeið hafa verið haldin fyrir nemendur í mars. Leiðbeinandi er Þorsteinn Hymer og hefur hann útvegað búnað þeim sem ekki eiga. Á Þorsteinn þakkir skyldar fyrir þetta frábæra framtak.

Í marsmánuði hafa staðið yfir æfingar og undirbúningur fyrir árshátíð skólans sem haldin var sl. fimmtudagskvöld. Voru skemmtiatriði í höndum nemenda 1.-7. bekkjar og stóðu þau sig öll mjög vel. Það var gaman að sjá hvernig allir nemendur komu fram og fóru með sín hlutverk.
Elstu börnin úr leikskólanum í Lundi komu fram með yngri deildinn þar og sýndu Úlfinn og kiðlingana sjö.
Nemendur 4. og 5. bekkjar í Lundi sýndu gamanleikþátt sem nefnist Gildran.
Nemendur 6. og 7. bekkjar í Lundi sýndu gamanleikþátt sem kallast Heimski konungurinn og létu ekki slá sig út af laginu þó allir leikarar væru ekki sammála um hvaða atriði þau væru komin í þegar næst síðasta atriði byrjaði. Þegar búið var að glugga í handritið var bara byrjað aftur og klárað með stæl.
Nemendur Kópaskersdeildar sýndu stytta útgáfu af Kardimommubænum.  Salurinn var mjög skemmtilegur á meðan á sýningu stóð og fóru ræningjarnir á kostum eins og aðrir. Hamagangurinn var svo mikill á tímabili að það var farið að fara um leikstjórana, þar sem þeir voru farnir að óttast að ærslagangurinn færu úr böndunum.
Okkur langar að biðja þá sem voru með stafrænar myndbandstökuvélar á árshátíðinni að koma til okkar upptöku sem við gætum annað hvort afritað eða fengið að eiga í skólanum.

Það er alltaf gaman að finna fyrir velvilja og hugulsemi fólks í garð skólans okkar. Á árshátíðina mætti hún Guðrún Jóna okkar, sem kenndi hjá okkur í fyrra. Hún færði skólanum dýrindis gjöf frá sér og fjölskyldu sinni, skjávarpa og sýningartjald. Við erum afar þakklát fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

Myndir eru komnar inn á síðuna.
Myndir frá upplestrarkeppni á Kópaskeri
Myndir frá upplestrarkeppni á Raufarhöfn

Myndir frá Freestyle og gistikvöldi

Myndir frá skíðakennslu

Myndir frá árshátíð