Brúum bilið

Til þess að samfella verði í námi barns, er talið æskilegt að brúa það bil sem er á milli leikskólans annars vegar og grunnskólans hinsvegar. Gott getur verið að líta á árin frá 4 – 8 ára sem eina heild. Samhengi í hugmyndafræði, kennslufræði og skipulagi þessara skólastiga væri einnig góður kostur til þess að búa til samfellu í skólastarfi þessa tveggja stofnana.
Hér verður nú lítillega sagt frá þá reynslu sem áunnist hefur í Öxarfjarðarskóla í þessu máli.
 
Árið 1992 flutti leikskólinn inn í húsnæði Grunnskólans á Kópaskeri sem þá hét, og hefur verið þar síðan. Sama haust hófst samstarf milli leikskólans og grunnskólans um verkefnið „Brúum bilið“. Markmiðið var að skapa samfellu í starfi skólanna, að börnunum liði vel og væru örugg þegar þau flyttust á milli skólastiga. Leikskólabörnin kynnast samnemendum og væntanlegum kennara og koma þar af leiðandi öruggari í skólann árið eftir. Helstu markmið í upphafi voru og eru enn:
  • Að mynda tengsl og skapa samfellu í starfi leik- og grunnskóla
  • Að efla samkennd, skapa hóp
  • Að örva málþroska, efla hlustun og athygli
  • Að auka hreyfifærni bæði fín- og grófhreyfinga
 
Síðustu árin hefur einnig samstarf verið milli leikskólans og grunnskólans í Lundardeild. Kópaskersdeild og Lundardeild voru sameinaðar og heita nú Öxarfjarðarskóli, sem kunnugt er.
 
Samstarfið hefur farið fram sem hér segir: Elstu börn leikskólans fara einu sinni í viku allt skólaárið inn í grunnskólann og taka þátt í sameiginlegri kennslulotu með 1. bekk grunnskólans, e.t.v. 2. og 3. bekkur með (samkennsla árganga). Kennslulotur hafa verið mislangar milli ára, frá 40 mínútum til 80 mínútna á viku. Starfsmaður frá leikskóla og starfsmaður frá grunnskóla kenna börnunum saman í tímanum. Kennslulotunni hefur t.d. verið skipt í tvennt, hver kennari undirbýr hvorn helming saman og /eða sinn í hvoru lagi. Nokkrir aðilar hafa starfað að samvinnuverkefninu í gegnum árin. Hefur hver verið með sínar aðaláherslur, t.d. stafainnlögn, ritað mál, málörvun, náttúruna, hreyfingu, slökun, tónlist, tónmennt og leikræna tjáningu.
Þetta samstarf hefur verið tiltölulega auðvelt í framkvæmd vegna samnýtingar á húsnæði, húsbúnaði og öllum kennslugögnum. Leikskólalóðin er hluti af útisvæði grunnskólanema, þess vegna blandast leikur þessara barna saman í frímínútum.
 
Verkefnið „Brúum bilið“ hefur staðið óslitið í skólanum okkar síðan árið 1992. Það er byggt upp á velvild, áhuga og samstarfsvilja milli kennara beggja stofnanna og jákvæðni foreldra, en hefur ekki fengið styrki frá viðeigandi sjóðum sem úthluta penigum til þróunarverkefna.
 
Samvinna er mikilvæg milli starfsfólk leik- og grunnskólans og foreldra. Við höfum einnig notið góðs af sérfræðiþekkingu fagfólks Félags- og skólaþjónustu Norðurþings. Gott upplýsingastreymi og traust milli þessara aðilla gerir starfið kleift. Einnig að sníða sér stakk eftir vexti, að taka frekar stutt skref í einu en ekki stór stökk til að byrja með, og koma á reglubundinni samkennslu og samvinnu. Markmið verða alltaf að vera fyrir hendi og sífellt endurmat á starfinu. Gott er að skrá það sem gert er í tímunum, hvað var vel gert og hvað mætti betur fara. Mikilvægt að börnin finni til öryggis og að þau þekki aftur það starf sem fer fram í skólanum þegar þau koma síðan þangað sem nemendur.