Reglugerð um skólaráð

1157/2008

Reglugerð um skólaráð við grunnskóla.

1. gr.

Hlutverk og skipan.

Við grunnskóla skal starfa skólaráð sem er samráðsvettvangur skólastjóra og skóla­samfélags um skólahald.

Skólastjóri hefur forgöngu um stofnun skólaráðs. Hann situr í skólaráði og stýrir starfi þess. Auk skólastjóra sitja í skólaráði tveir fulltrúar foreldra, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi annars starfsfólks skólans, tveir fulltrúar nemenda og einn fulltrúi grenndar­samfélags eða viðbótarfulltrúi úr hópi foreldra valinn af öðrum fulltrúum skólaráðs. Staðgengill skólastjóra stýrir skólaráði í forföllum skólastjóra.

2. gr.

Verkefni.

Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans í samræmi við stefnu sveitarfélags um skólahald.

Skólaráð:

  1. fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skóla­starfið,
  2. fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar,
  3. tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndar­samfélagið,
  4. fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda,
  5. fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum,
  6. fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, al­menn­um starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, mennta­mála­ráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað,
  7. tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitar­stjórnar.

Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.

3. gr.

Kosning.

Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn. Miðað skal við að skipað sé í ráðið í upphafi skólaárs fyrir lok septembermánaðar. Kosningum skal haga á eftirfarandi hátt:

  1. tveir fulltrúar kennara skulu kosnir á kennarafundi,
  2. einn fulltrúi annars starfsfólks skal kosinn á starfsmannafundi þess,
  3. tveir fulltrúar foreldra skulu kosnir samkvæmt starfsreglum foreldrafélags, sbr. 9. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
  4. tveir fulltrúar nemenda skulu kosnir samkvæmt starfsreglum nemendafélags, sbr. 10. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla,
  5. skólaráð skal sjálft velja einn fulltrúa úr hópi íbúa í grenndarsamfélaginu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra.

Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Varamenn geta tekið sæti í skólaráði á ein­stökum fundum í forföllum aðalmanns. Varamaður tekur fast sæti við varanleg forföll eða missi kjörgengis aðalmanns, nema nýr sé kjörinn eða valinn í hans stað.

Fulltrúi í skólaráði missir hæfi sitt til setu í ráðinu ef tengsl hans við skólann rofna.

4. gr.

Starfsáætlun.

Skólastjóri stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Vinnulag og starfshættir skólaráðs skulu m.a. taka mið af stærð skóla, fjölda árganga og öðrum einkennum hans.

Skólaráð skal setja sér starfsáætlun til eins skólaárs í senn, m.a. um tíðni funda, boðun þeirra og undirbúning. Skólastjóri boðar reglulega til funda. Skólaráð skal að lágmarki halda einn opinn fund á ári um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins.

Skólaráð starfar á starfstíma skóla en heimilt er að kalla það saman á öðrum tíma beri brýna nauðsyn til. Skylt er að kalla saman fund ef þrír eða fleiri skólaráðsmenn óska þess.

Halda skal gerðabók um skólaráðsfundi og skulu fundargerðir liggja frammi í skólanum og á vef skóla.

Skólaráð getur sett sér nánari starfsreglur.

5. gr.

Þátttaka nemenda í skólaráði.

Fulltrúar nemenda skulu ávallt eiga þess kost að taka þátt í starfi skólaráðs þegar fjallað er um velferðar- og hagsmunamál nemenda, árlega starfsáætlun skóla, aðrar áætlanir er varða skólahaldið og um meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla.

Skólastjóri getur, að höfðu samráði við nemendur og aðra fulltrúa í skólaráði, leyst fulltrúa nemenda undan setu í skólaráði, t.d. þegar mál eru á vinnslustigi og þegar verið er að fjalla um mál þar sem nemendur telja sig ekki hafa forsendur til þátttöku. Fulltrúar nemenda hafa þó ávallt rétt á að taka þátt í starfi skólaráðs.

Fulltrúar foreldra í skólaráði gæta hagsmuna nemenda þegar þeir, vegna aldurs eða þroska, geta ekki tekið þátt í störfum skólaráðs, sbr. 13. gr. laga nr. 91/2008 um grunn­skóla og 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Skólaráð getur vísað erindum sem það hefur fjallað um, ásamt umsögn, til skólanefndar, foreldrafélags, starfsmannafundar eða nemendafélags.

6. gr.

Skólaráð í samreknum skóla.

Sveitarstjórn getur ákveðið að skólaráð grunnskóla og foreldraráð leikskóla starfi sam­eigin­lega í einu ráði í samreknum leik- og grunnskóla, skv. 45. gr. laga um grunnskóla. Miða skal við að fulltrúar nemenda komi úr efstu bekkjum grunnskólans og að fulltrúar foreldra og kennara komi frá báðum skólastigum. Ákvæði þetta gildir einnig um skóla þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög hafa samvinnu um rekstur hans, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 8. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 4. desember 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.