Dagur íslenskrar náttúru - vettvangsferð

Í dag er dagur íslenskrar náttúru og samkvæmt skóladagatali var ákveðið að fara í vettvangsferð í þjóðgarðinn en því var flýtt til fimmtudagsins 11.september.
Þá fóru allir nemendur Öxarfjarðarskóla í vettvangsferð í Jökulsárgljúfur. Þar tók Róbert Karl landvörður á móti nemendum, fjallaði um hlutverk þjóðgarða og mikilvægi náttúrutúlkunar. Eftir það var hópnum skipt í tvennt. Eldri deild gekk Svínadalshringinn, sem er 7 kílómetra leið. Þar skoðuðu þau eyðibýlið Svínadal og náttúruna sem fyrir augum bar á leiðinni.
Yngri deild fór í barnastund með Róberti Karli og gengu svo inn í botn Ásbyrgis sem er um 5 kílómetra leið. Á leið sinni sáu þau meðal annars minnsta fugl landsins, Glókoll.

Síðustu misseri hefur eldri deild fjallað um náttúru og menningu í heimasveit í þematímum og yngri deild um tré og gróður. Í þeim tímum fór bæði fram undirbúningur fyrir ferðina og mun nú fara fram eftirvinnsla.
Mikil ánægja er með ferðina, bæði meðal nemenda og starfsfólks. Sérstaklega vill skólinn þakka Þjóðgarðinum fyrir farsælt samstarf.