Dagur íslenskrar tungu

Í morgun fögnuðum við degi íslenskrar tungu (16. nóvember) og jafnframt 217 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar sem lagði sitt af mörkum til nýyrðasmíði á íslensku. Hann á u.þ.b 200 orð sem við notum daglega enn þann dag í dag. Orð sem tengjast námsefni nemenda á borð við líkindareikningur, láréttur, meltingarfæri og æðakerfi. Að ekki sé minnst á "fluggáfaður" eins og við teljum nemendur okkar vera. 
Þá eru orð eins og lambasteik, sveitasæla, kvöldkyrrð, vinahópur, ástfagur , hárfagur og fagurtær einnig úr smiðju Jónasar. Við eigum honum mikið að þakka og undir hverjum og einum komið að gæta okkar dýrmæta máls eins og segir í ljóðinu: Að gæta hennar gildir hér og nú, það gerir enginn nema ég og þú. 
Byrjað var á samsöng á kvæðinu um fuglana en við sungum textann eftir Þórarin Eldjárn; Á íslensku má alltaf finna svar.
Nemendur kynntu svo ýmis verkefni sem hafa verið unnin upp á síðkastið.
Yngri deildin fór með alls kyns romsur og rímur sem hafa fylgt okkur í gegnum tíðina eins og "Stebbi stóð á ströndu", "Horfumst í augu grámyglur tvær" og "Fagur er fiskur í sjó".  

Miðdeildin fann íslensk orð yfir enskuslettur sem eru mjög gjarnan notaðar í daglegu máli án þess að við tökum orðið eftir því eins og *basically*= *í rauninni* , *ókei* = *allt í lagi*, * by the way* = *bara svo þú vitir* og mörg fleiri.


Unglingadeildin nýtti sér nýjustu tæknina - gervigreindina eða Chatgpt og bað hana að semja barnabók á íslensku fyrir 6-12 ára um hringrás vatns og í því sambandi ferðalag nokkurra regndropa.
Þau sögðu frá því hvernig mata þurfti gervigreindina til að úr yrði heildstæð saga. Þá bjó gervigreindin einnig til myndir fyrir bókina sem pössuðu við söguna. Við vorum sammála um að Jónas Hallgrímsson hefði ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér að einhvern tímann myndum við notast við gervigreind.