Eldur, ís og mjúkur mosi í Gljúfrastofu

Í gær opnaði sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi í Gljúfrastofu.
Á sýningunni eru verk nemenda í Öxarfjarðarskóla sem voru hluti af sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi en það var samstarfsverkefni Vatnajökulsþjóðgarðs, Náttúruminjasafns Íslands, grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna. Jenny Please vann verkið með nemendum frá 1.-10. bekk. í Öxarfjarðarskóla

Sýningin var sett upp í Perlunni sem hluti af Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Hönnunarmars.
Verkefnið miðaði að því að beisla sköpunarkraft barnanna, sem fengu þýðingarmikinn vettvang til að túlka náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu með aðstoð hönnuða og listafólks í fremstu röð. Í gegnum listræn ferli sköpuðust dýrmætar tengingar milli barnanna og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem auka á meðvitund framtíðarkynslóðanna um þá sameign þjóðarinnar sem þjóðgarðurinn er. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Sýningin mun standa í Gljúfrastofu í sumar og við hvetjum alla til að leggja leið sína þangað og skoða.