Fréttakorn í­ nóvember

Photo By: Christopher Bienko Dartmouth, Nova Scotia, Canada

Svo ótrúlega sem það kann að virðast er kominn mánuður frá síðasta fréttakorni. Með því að smella á lesa meira er hægt að lesa pistil Hrundar um það helsta sem gerst hefur undanfarinn mánuð og það sem framundan er. Þar er m.a. sagt frá degi íslenskrar tungu, flensu og ýmsu fleiru.

 

Komið þið sæl!
 
Nýr mánuður – nýtt valblað
Tíminn líður hratt og við erum farin að sjá fyrir endann á árinu 2009 þó við eigum enn eftir u.þ.b. mánuð af skólastarfinu. Nemendur fengu nýtt valblað með sér heim fyrir síðustu helgi og nauðsynlegt er að þau komi með blaðið undirritað af foreldrum til baka.
 
Flensan herjaði og haustgleði frestað
Eins og kannski flestir vita, höfum við ekki farið varhluta af flensunni og um tíma vantaði þó nokkurn hóp starfsfólks og nemenda. Það gekk þó allt saman upp þó við þyrftum að fresta haustgleðinni um hríð enda er mikilvægt að sem flestir í samfélaginu eigi þess kost að sækja þessar skemmtanir. Vonandi er flensan á undanhaldi.
 
Fundur um rafrænt einelti
Félagsþjónustan á Húsavík stóð fyrir fræðslufundi um rafrænt einelti þann 29. október sl. þar sem Þorgrímur Sigmundsson velti upp skuggahliðum netmiðlanna sem geta eyðilagt líf einstaklinga sé þeim beitt í annarlegum tilgangi. Því miður var afar slök mæting unglinga og foreldra og voru það einungis sex foreldrar sem mættu með unglingana. Hins vegar spruttu upp góðar umræður og spjall í kringum þessi mál og unglingarnir tóku þátt í því.
 
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í skólanum í gær. Allir nemendur auk elstu barnanna á leikskólanum komu saman í gryfju strax eftir hádegismat og lögðu sitt af mörkum með upplestri, söng eða leik og stóðu sig með afbrigðum vel. Að lokum sungu allir saman lagið “Á íslensku má alltaf finna svar”.
 
Könnun um líðan og viðhorf
Fyrirhugað er að senda út rafræna könnun til foreldra, eins og gert var í fyrra, um líðan nemenda, og viðhorf foreldra til skólastarfsins. Við biðjum alla um að taka virkan þátt þannig að niðurstöðurnar verði sem nákvæmastar. Við munum minna á könnunina þegar þar að kemur.
 
Foreldrafundur verður fimmtudagskvöldið 26.nóvember í Lundi kl. 19:30.
Á þessum fundi þarf m.a. að kjósa foreldrafulltrúa fyrir bekkjardeildir sem munu þá skipa stjórn foreldrafélagsins. Kjósa þarf einn fulltrúa fyrir 1.-3. bekk, einn fyrir 4.-5. bekk, einn fyrir 6.-7. bekk, einn fyrir 8.-9. bekk og einn fyrir 10. bekk, sem sagt 5 fulltrúar sem skipa stjórn foreldrafélagsins. Þessir foreldrafulltrúar eru þá tengiliðir milli skóla (umsjónarkennara) og heimila.
 
Fjáraflanir unglingadeildar
Nú þarf að fara að huga að fjáröflunum fyrir vorið því okkur langar að komast í skólaferðalag með unglingadeildina – helst á skíði til Akureyrar. Við höfum mjög öfluga fjáröflunarnefnd sem hefur óendanlega margar hugmyndir – það þarf bara að koma þeim í framkvæmd J. Til þess þurfum við aðstoð foreldra því margar hendur vinna létt verk. Fyrirhugað er að vera með eitthvað frá skólanum til sölu á menningardeginum og jafnvel kaffi og vöfflusölu eins og í fyrra sem gekk ljómandi vel.
 
Jólapróf – Litlu jól
Ráðgert er að hafa jólapróf í vikunni 7.-11. des og við munum senda út prófatöflu þegar nær dregur. Nemendur fá svo námsmatið með sér heim fyrir jól. Litlu jólin verða haldin hátíðleg fimmtudaginn 17. desember, þar sem við verðum með árlegt pakkapúkk, borðum hátíðarhádegisverð og dönsum í kringum jólatréð.
 
Vetrarkveðjur úr Öxarfjarðarskóla,
Hrund