Fyrsta fréttakorn nýs skólaárs

http://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/myndir/gallery/Vetur_09-10/Skolaferdalag_1-7_bekkur/Danilo.jpgHeil og sæl!

Þá er komið að fyrsta fréttakorni þessa skólaárs. 

Skólastarfið fer vel af stað og nemendur mæta glaðir og tilbúnir til leiks og starfa. Það eru nokkrar upplýsingar sem við þurfum að koma á framfæri varðandi það sem er á döfinni hjá okkur.

Í þessu fréttakorni verður sagt frá því að sundnámskeið og lengd viðvera hefjast í næstu viku. Einnig minnum við á samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk. Að lokum segjum við frá skólaferðalagi 1.-7. bekkjar og vettvangsferðum í Akurgerði og til að skoða fornleifauppgröft.

Smellið á lesa meira til að lesa fréttabréfið í heild sinni.

Sundnámskeið. Jóhann Rúnar ætlar að koma til okkar mánudaginn 14. september og koma nemendum og kennurum af stað í sundkennslu. Ætlunin er síðan að halda sundinu áfram meðan veður leyfir þannig að sund verður framvegis kennt í íþróttatímum næstu þrjár vikurnar. Allir mæti með sundföt á mánudaginn!

Lengd viðvera. Lengd viðvera hefst þriðjudaginn 15. september og fá nemendur valblöð með sér heim í vikunni með upplýsingum um þær tómstundir sem í boði eru. Það er rétt að árétta það til að fyrirbyggja allan misskilning að ef nemendur velja aldrei heimanám eða vinnustofur, verða þau að sinna því heima. Ekki er hægt að velja heimanám og ætla síðan í tómstundastarf viðkomandi dag.

Samræmd próf. Samræmd próf hjá 4. 7. og 10. bekk hefjast í næstu viku. Mánudaginn 14. september er íslenskupróf hjá 10. bekk, þriðjudaginn er enska og miðvikudaginn er stærðfræði. Á fimmtudeginum 17. september verður íslenska lögð fyrir hjá 4. og 7. bekk og síðan stærðfræði á föstudeginum 18. september. 

Frá Menntamálaráðuneytinu: Tilgangur samræmdra könnunarprófa er m.a. að athuga eftir því sem kostur er, að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð, vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur og veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda.

Skólaferðalag 1.-7. bekkja. Eftir skóla í gær, miðvikudag, fóru 1.-7. bekkur í skólaferðalag til Húsavíkur að sjá Cirkus Baldoni. Þau fengu hressingu í skólanum áður en lagt var af stað og fóru svo í pizzuhlaðborð á Húsavík. Sirkusinn hófst síðan kl. 19.00. Þetta var tveggja tíma fjölbreytt sýning sem var mikil upplifun fyrir alla. Það var almenn ánægja með ferðina í hópnum en töluverð þreyta í þeim yngstu í skólanum í dag.

Myndir úr skólaferðalagi

Fornleifauppgröftur á Dettifossvegi. Við höfðum fengið fregnir af fornminjauppgreftri við Dettifossveg að vestan. Fornleifafræðingarnir voru boðnir og búnir að taka á móti okkur og þar sem verið er að grafa upp minjar í umhverfi okkar, fannst okkur upplagt að fá að skoða það sem verið er að gera. Við fórum uppeftir í góða veðrinu í dag, unglingadeildin fyrir mat og miðdeildin eftir hádegi. Yngstu nemendurnir fara síðan í fyrramálið

Það var óskaplega gaman að fá að sjá þetta hjá þeim og tóku fornleifafræðingarnir einstaklega vel á móti okkur. Þetta eru stórmerkilegar minjar sem búið er að grafa þarna upp. Búið er að grafa að miklu leiti upp skála sem að öllum líkindum er ekki yngri en frá 11. öld.

Við uppgröftinn hefur fundist eitthvað af munum frá þessum tíma, forláta silfurnæla, hnífur, ásamt öðrum minni sem hugsanlega gæti verið örvaroddur, brýni, vígtönn sem er mögulega úr ísbirni og hefur verið sorfin til og fleiri mannvistarleifar eins og bein o.þ.h. Þetta var áhugaverð ferð og virkilega gaman að fá tækifæri til að kynnast fornleifauppgreftri í okkar nágrenni.

Myndir úr ferðinni

Akurgerði. Á mánudaginn fóru 1.-3. bekkur í Akurgerði með Vigdísi og Bóa að njóta haustlitanna og útiverunnar. Þau tíndu aðalbláber, hrútaber og laufblöð sem þau munu síðan nota til að búa til listaverk í smíðum hjá Bóa. Valhópurinn í útikennslu í unglingadeildinni fór á sama tíma í Akurgerði í skógarhögg til að grisja. Afraksturinn munu þau svo nýta í uppbyggingu útikennslusvæðis. Þá munu þau læra að “súrra” saman tré og greinar fyrir útikennslustofuna.

Myndir úr Akurgerði koma seinna