Litlu jólin voru haldin í dag í Öxarfjarðarskóla og fóru fram með hefðbundnu sniði. Rétt fyrir kl 12 var kallað í gryfju og eldri nemendur paraðir við yngri nemendur. Síðan var þrammað niður í matsal þar sem búið var að setja upp langborð. Þar sáu eldri nemendur um að aðstoða þau yngri og gerðu þau það afskaplega vel og fallega. Þetta er skemmtilegur siður og gaman að horfa yfir salinn og sjá natnina sem eldri nemendurnir sýna þeim yngri, jafnvel þau þau séu þeim ekki alltaf auðveld. Hulda og Laufey voru búnar að matreiða afbragðsgott léttreykt svínakjöt með meðlæti sem gerð voru góð skil. Á eftir var svo boðið upp á ís með heitri og kaldri sósu sem var ekki síður gerð góð skil. Eftir matinn höfðu eldri nemendur ofan af þeim yngri í smá stund meðan starfsfólkið skiptist á pökkum í pakkapúkki. Síðan fóru nemendur inn í heimastofur þar sem hver hópur hélt jólastund með sínum umsjónarkennurum. Að því loknu var farið aftur niður í matsal og dansað í kringum jólatréð við undirleik þeirra Reynis og Haffa. Í miðjum klíðum brast á með miklum látum og birtust allt í einu tveir rauðklæddir sveinar sem vöktu mikla lukku. Þeir stoppuðu í góða stund, dönsuðu með krökkunum og sungu og sögðu sögur. Eftir jólakaffi var svo marserað og dansað aðeins áður en rúturnar fóru heim með nemendur.