Góður árangur í Lesfimi

Lestur, lesskilningur og lestrarfærni skipta höfuðmáli í öllu námi og þarf að vera samstarfsverkefni skóla og heimila. Við leggjum mikla áherslu á lestur í skólanum, bæði yndislestur og raddlestur á öllum stigum. Í janúar vorum við með lestrarátak sem skilaði sér í betra flæði og meiri hraða. Hins vegar má ekki einungis líta til hraðans, því lesskilningurinn þarf að fylgja með og ekki síður þættir sem lúta að tjáningu, sjálfvirkni, hljómfalli og flæði en þeir þættir eru metnir samhliða Lesfimiprófunum. Við skulum alltaf hafa í huga framfarir hvers og eins nemanda og gæta þess að taka ekki alltaf mið af öðrum. Persónulegar framfarir eru þær sem mestu máli skipta, hvar sem nemendur eru staddir í ferlinu.

Lesfimi er hluti af margvíslegri færni sem barn þarf að tileinka sér. Í henni felst að texti er lesinn á nákvæman og sjálfvirkan hátt. Góð lesfimi birtist í góðum leshraða þar sem texti flæðir vel og án áreynslu þannig að barnið getur einbeitt sér að því að skilja textann. Lesfimi birtist einnig í því að hljómfall lestrar er í samræmi við innihald texta.

Í Lesfiminni er reiknað með að 90% nemenda séu á viðmiði 1 að vori í lok skólaárs, um 50% í viðmiði 2 og 25% í viðmiði 3.

Nemendur tóku mikið stökk milli Lesfimiprófanna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum frá september 2023 og janúar 2024 sem sýna glöggt að nemendur Öxarfjarðarskóla eru alla jafna um og yfir landsmeðaltali í Lesfiminni. Ástæða er til að þakka foreldrum fyrir gott samstarf við að efla lesturinn. Höldum áfram á sömu braut!

September 2023:                                                                                           Janúar 2024: