Góugleði í­ Lundi

Hin árlega vorhátíð nemenda unglingadeildar var haldin í gær. Venjulega hefur hún verið á Hörpunni og því heitið Hörpugleði. Núna var ákveðið að hafa hana fyrr á dagskrá og var hátíðin því kölluð Góugleði að þessu sinni.

Það má segja að þessi hátíð hafi fest sig rækilega í sessi sem liður í skólastarfinu. Allir nemendur í 7. - 10. bekk tóku þátt í að allt færi sem best fram.

Nemendur 7. bekkjar voru með upplestur úr verkum Ólafs Hauks Símonarsonar, en hann var þema kvöldsins, og átti það vel við vegna þess hve unglingarnir stóðu sig vel við flutning á leikritinu hans Gauragangur sem þau sýndu í desember og janúarbyrjun.

Nemendur unglingadeildar fluttu ýmis atriði, Aðalbjörn lék á gítar og að auki las hann ritgerð sína sem hann fékk önnur verðlaun fyrir í samkeppni sem Landsbyggðin lifir stendur fyrir. Ke las einnig upp sína ritgerð, Helga Björg spilaði á þverflautu, Björn Leifs stjórnaði, ásamt nokkrum nemendum fjöldasöng, þar sem sungin voru nokkur af þekktari lögum Ólafs Hauks. Í lokin tróðu Kristveig og Íris upp með lagið sem þær fluttu á söngkeppninni á Króknum í byrjun mánaðarins.

Maturinn var sérlega ljúffengur og átti Guðmundur Magnússon heiðurinn að honum eins og undanfarin ár. Hann var sérstaklega heiðraður með viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf sitt.

Myndir frá Góugleðinni eru hér.