Innra matsskýrsla hefur verið unnin fyrir skólaárið 2023-2024 og lögð fyrir Fjölskylduráð Norðurþings.
Skýrslan byggir á mati á starfsáætlun skólaársins sem og starfsmannasamtölum, foreldra- og nemendakönnunum auk mats á viðmiðum um gæðastarf í grunnskólum Norðurþings.
Helstu niðurstöður eru þær að nemendum líður alla jafna vel í skólanum og eru sáttari með núverandi deildaskiptingu, þ.e. þrjár deildir í stað tveggja. Þá standa nemendur skólans sig jafnvel og oftast betur en jafnaldrar þeirra á landinu í Lesfimiprófum en mikið er lagt upp úr lestri og læsi í skólanum.
Það sem nemendum finnst að megi bæta er útiaðstaðan en þeir hafa að litlu að hverfa á skólalóðinni fyrir utan nokkrar rólur og rennibraut. Gera þarf bragarbót á körfuboltavelli og koma upp sparkvelli sem yrði þá fjölnota völlur fyrir boltaleiki, frístund og fleira.
Foreldar telja langflestir að börnum þeirra líði vel í skólanum, eru yfirleitt ánægðir með teymiskennsluna og það sem snýr að námi barnanna en finnst að hlúa þurfi betur að skólalóð með tilliti til nemenda.
Starfsfólk er almennt sátt við sínar vinnuaðstæður og mest eru það utanaðkomandi þættir sem þá snúa að sveitarfélaginu að bæta úr. Sem dæmi má nefna viðhald sundlaugarinnar sem er mikilvæg í starfsemi skólans, bætt aðgengi að vörumóttöku og brýn stækkun leikskólalóðarinnar.
Hins vegar var unnið að úrbótum innanhúss í vetur og starfsmannaaðstaðan var endurbætt með nýju gólfefni og máluð. Þá voru sett upp ný fatahengi fyrir nemendur í forstofu skólans og bætt úr ýmsu smávægilegu sem þarfnaðist úrbóta í leikskóladeild og víðar.
Helstu starfsþróunarverkefni ársins voru áframhaldandi innleiðing á Mentor sem m.a. heldur utan um alla skráningu á framförum nemenda, hafist var handa við samlestur á leiðsagnarnámi og öðru ári af þremur í teymisvinnuverkefni í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar við Háskóla Íslands lauk.
Hér má finna skýrsluna.