Litlu jólin voru haldin hátíðleg í dag í leik- og grunnskóladeild með hefðbundnu sniði. Hefðin hefur verið sú að eldri nemendur sjá um að skreyta salinn fyrir hátíðarmatinn, taka þá yngri að sér og aðstoða í matsalnum þegar hátíðarmaturinn er snæddur. Að loknum stofujólum var haldið veglegt jólaball þar sem foreldrar mættu og þeir Guðni Bragason skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur og Jónas Þór Viðarsson tónlistarkennari spiluðu fyrir dansi og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir framlagið og velvildina í garð skólans.
Gluggagægir og Hurðaskellir mættu á svæðið með hurðaskellum og dönsuðu með börnunum og gáfu þeim mandarínur. Að lokum var marserað og síðan boðið upp á kaffi og smákökur.
Þá er skólinn kominn í jólafrí til 3. janúar og við óskum öllum gleðilegra jóla, farsældar og friðar á komandi ári með kærri þökk fyrir ánægjulegt samstarf á liðnu ári.