Í gær var öskudagur haldin hátíðlegur. Að þessu sinni var hann með öðru sniði en áður því ákveðið var að prófa að bjóða öllum nemendum skólans upp á dagskrá á Kópaskeri. Lundarnemendur fóru frá Lundi eftir hádegismat, komu við í Silfurstjörnunni og sungu þar og komu síðan á Kópasker. Þar hittu þau Kópaskersnemendur og gengu milli fyritækja í þremur hópum, skipt eftir aldursstigum. Að því loknu hittust allir hópar í Pakkhúsinu sem búið var að skreyta. Þar fengu þau gos og flögur, kötturinn var sleginn úr tunnunni og teknar myndir af öllum. Svo var dansinn stiginn, fyrst við popptónlist en síðan tók Jóhann við og stjórnaði gömlu dönsunum af myndarskap. Það var gaman að sjá hversu duglegir krakkarnir voru að dansa og greinilegt að þau hafa lært heilmikið í danskennslu í íþróttatímunum hjá Jóhanni.
Gunna Magga tók að sér að halda utan um og skipuleggja daginn og á hún skilið hrós fyrir hversu skemmtilega til tókst. Hún fékk marga í lið með sér til að gera daginn skemmtilegan og var ekki annað að sjá en krakkarnir hefði haft gaman af.