Skemmtilegur samstarfsdagur skólanna

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru nemendur Grunnskóla Raufarhafnar sem kíktu til okkar ásamt starfsfólki.

Dagurinn var skipulagður sem uppbrotsdagur og talsvert var lagt upp með að hrista hópinn saman í leik og starfi. Nemendur sýndu hvert öðru verkefni sem þau hafa unnið hörðum höndum að síðustu vikur og má því segja að þetta hafi verið hálfgerð uppskeruhátíð líka.

Nemendur á yngsta stigi kynntu verkefni sín fyrir nemendum miðdeildar, þar voru ýmis verkefni tengt tröllum, álfum og huldufólki til sýnis ásamt ýmsum fróðleik sem fylgdi á hverjum stað.

Nemendur miðdeildar héldu svo kynningar fyrir nemendur yngsta stigs þar sem mannslíkaminn var í brennidepli. Gestir kynningarinnar fengu að prófa ýmislegt eins og að skoða fingrafar sitt, kanna blóðþrýsting, taka púlsinn og fræðast um blóðgjafir, blóðrás, sjúkdóma í blóði og fleira.

Unglingadeild sýndi svo nemendum miðdeildar myndbönd sem þau hafa unnið hörðum höndum að síðustu vikur og snéru að þróun. Í lok hvers myndbands fengu gestir að taka þátt í spurningaleik sem vakti mikla lukku.

Daginn enduðum við svo á skemmtilegum ratleik þar sem nemendum var skipt í blandaða hópa og allir fengu kakó og ávexti í lokin.

Dagurinn var mjög vel heppnaður, nemendur okkar voru mjög gestrisnir og náðu að mynda góð tengsl við krakkana frá Raufarhöfn. Mikið reyndi á tungumálakunnáttu nemenda þar sem margir nemendur af erlendu bergi brotnu komu saman. Allir ánægðir með daginn og vonum við að þið njótið frídagsins, 1. maí.