Í síðustu viku fóru nemendur 7.-10. bekkjar í skíðaferðalag til Akureyrar. Ferðinni hafði verið frestað vegna þessa mikla hvassviðris sem fór yfir landið vikuna áður.
Það var lagt af stað að morgni sunnudagsins 10. febrúar. Þegar við komum á Svalbarðsströndina fréttum við að lokað væri uppi í fjalli vegna hvassviðris. Við fórum því beint í íþróttahöllina þar sem við gistum og byrjuðum að koma okkur fyrir. Þegar ljóst var að fjallið yrði ekki opnað þann daginn var ákveðið að skella sér á skautasvellið í staðinn þar sem menn renndu sér fram eftir degi.
Á mánudagsmorgun fóru nemendur 9. og 10. bekkjar í skoðunar- og kynnisferð í VMA. Því næst var brunað upp í fjall þar sem mannskapurinn fékk skíði og bretti og fóru svo í brekkurnar. Hópurinn fékk kennslu, bæði á skíði og bretti, og tóku margir miklum framförum. Veðrið uppi í fjalli var þokkalegt framan af en það jók alltaf í vind og um kaffileytið var orðið mjög hvasst og lélegt skyggni. Þá var haldið niður í bæ þar sem tóku við sund og bíóferðir fram eftir kvöldi.
Á þriðjudagsmorgun var farið í kynnisferð í MA. Veðurútlit dagsins var ekki gott, hvasst uppi í fjalli og tvísýnt með opnun þann daginn. Við drifum því af að ganga frá og þrífa í íþróttahöllinni. Þá var enn búið að fresta opnun uppi í fjalli. Það var mikil óánægja í nemendahópnum með það, helst að heyra á sumum að samsæri kennara væri um að kenna því þeir nenntu ekki í fjallið og vildu fara að komast snemma heim. En þó máttugir séu hafa kennarar ekki enn náð valdi yfir náttúruöflunum. Það var því haldið á Glerártorg þar sem nemendum var sleppt í búðarráp meðan beðið væri og séð til með fjallið. Þegar búið var að athuga eina ferðina enn hvernig aðstæður væru uppfrá og ljóst að mjög tvísýnt væri að opnað yrðið þann daginn var haldið aftur á skautasvellið þar sem margir fóru í íshokkí. Síðan var haldið heim.
Það urðu einhverjir fyrir vonbrigðum með það að ekki skyldi vera tækifæri til að skíða meira. Sérstaklega þegar menn voru rétt að byrja að ná tækninni að fá þá ekki tækifæri til að æfa sig og láta reyna á hana. En þannig er þetta þegar við búum á Íslandi, veðrið getur verið ófyrirséð. Við hvetjum því foreldra og nemendur að taka sig saman og efna til dagsferðar á skíði einhvern daginn sem vel lítur út með veður.