Í gærmorgun var lagt af stað í skólaferðalag í Mývatnssveit með nemendur yngri og miðdeildar. Ekið var sem leið lá beint til jólasveinanna í Dimmuborgum þar sem þeir Pottaskefill og Stekkjastaur tóku á móti ferðalöngum úr Öxarfjarðarskóla. Nemendur fengu að skoða sig um í ævintýralegum heimkynnum þeirra bræðra og var sannarlega jólalegt um að litast. Hádegisverður var svo snæddur í Kaffi Borgum og þaðan lá leiðin í Vogafjós þar sem kýrnar voru skoðaðar og hjá mörgum stóð sú heimsókn upp úr. Síðan var farið að fuglasafni Sigurgeirs sem hefur að geyma fjöldann allan af uppstoppuðum íslenskum fuglum. Að lokum gæddu nemendur sér á samlokum og kókómjólk sem var meðferðis í nesti og lagt af stað heim.