Skólaslit Öxarfjarðarskóla

Hefð er fyrir því að fara yfir það helsta úr starfi skólans á skólaslitum.

Í vetur voru grunnskólanemendur 34 og leikskólabörn 26 – alls 60 börn við Öxarfjarðarskóla og fer fjölgandi á næsta ári.

Við áttum í góðu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki í nærsamfélaginu. Samstarf við Grunnskóla Raufarhafnar var með breyttara sniði en verið hefur undanfarna vetur. Skipulagðir voru þrír samstarfsdagar skólanna; einn á Teams í desember þar sem nemendur kynntu verkefni síðastliðinna vikna og síðan einn dagur á Raufarhöfn í febrúar og annar í Lundi 30.apríl sl. Þetta gekk allt saman prýðilega upp og nemendur og starfsfólk sátt með útkomuna.

Þá höfum við átt í farsælu samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur sem og fleiri stofnanir í nærumhverfi okkar sem taka vel á móti nemendum í atvinnukynningar á vorin. Þjóðgarðurinn ásamt kvenfélögunum og fleiri félagasamtökum eru bæði ómetanlegir og dyggir stuðningsaðilar skólans og fyrir það viljum við þakka.

Árshátíð skólans og Vorgleðin eru stærstu viðburðir skólans þar sem nemendur, starfsfólk og foreldrar vinna saman að því að gera þessar hátíðir svo mikilfenglegar og flottar. Í ár sýndu eldri nemendur söngleikinn Aladdín og þau yngri Öskubusku. Vorgleðin hefur þróast hjá okkur í það að allir nemendur skólans eru með kynningar á verkefnum sínum. Yngri deildin kynnti verkefni um eldgos en mið – og unglingastig verkefni tengd mannkynssögu.

Nemendur eru að verða býsna sjóaðir í að kynna samþætt þemaverkefni sín fyrir hvert öðru og einnig foreldrum og það er gaman að sjá hversu duglegir foreldrar eru að mæta og sýna verkum nemenda áhuga. Okkur finnst líka mikilvægt að foreldrar fá þannig tækifæri að sjá hvað nemendur eru að aðhafast fyrir utan það hvað nemendur eru stoltir af verkum sínum.

Við ákváðum að prófa að halda okkar eigið þorrablót í skólanum og kynntum þannig fyrir nemendum hvernig þorrablót fara fram – að undanskildu balli. Nemendur undirbjuggu skemmtiatriði, sunginn var fjöldasöngur og boðið upp á þjóðlegan þorramat. Þessi viðburður mæltist það vel fyrir að ákveðið var að halda annað blót á næsta ári og bjóða foreldrum að taka þátt með okkur.

Okkur finnst gaman að fá heimsóknir og fengum við nokkrar á árinu. Þorgrímur Þráinsson kom og ræddi við nemendur um mikilvægi sjálfsábyrgðar, samkenndar og þrautseigju ásamt mikilvægi lesturs og áhrifa hans á orðaforða. Þá komu til okkar listamenn annars vegar frá listfræðsluverkefni Skaftfells með ljóðlist og sköpun og hins vegar frá List fyrir alla með leiksýninguna Skoffín og skringilmenni.

Svo var það samstarfsverkefni Þjóðgarðsins, náttúruminjasafnins og skólans þar sem nemendur skólans unnu verkefnið Eldur ís og mjúkur mosi undir handleiðslu Jennyjar og Láru en það var sýnt í Perlunni fyrir skemmstu. Sýningin verður aftur sett upp í Gljúfrastofu í sumar.

Mikið kapp var lagt á lestur í öllum deildum og það skilaði sér með miklum ágætum í Lesfimiprófinu en Öxarfjarðarskóli er um og yfir landsmeðaltali þegar kemur að Lesfimi. Foreldrar eru mikilvægir þátttakendur í öllu námi barna sinna og sú æfing sem heimalesturinn er, skilar heilmiklu og er beinlínis nauðsynleg á yngstu stigum þegar nemendur eru að stíga sín fyrstu skref og þjálfa færni sína.
Að sjálfsögðu mælir umrædd Lesfimi einungis hraða en MMS sem áður hét Menntamálastofnun og nú hefur fengið heitið Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, er að þróa nýtt verkfærakistu fyrir skóla, samræmt námsmat, sem þjóna á nemendum, kennurum og foreldrum til að meta stöðu og framfarir nemenda. Prófin verða fjölbreytt og hnitmiðuð, þar má nefna stöðu- og framvindupróf, skimunarpróf og ýmis verkfæri sem styðja við kennslu. Þá er einnig í þróun framvindupróf í lesskilningi fyrir 3. – 10.bekk. Miðað er að því að hægt verði að nýta þessi samræmdu próf í upphafi skólaárs 2025.

Í annað skipti áttum við nemanda sem hafnaði meðal 10 efstu í Pangea stærðfræðikeppninni. Í fyrra hafnaði Björn Ófeigur í 10.sæti og að þessu sinni varð Jón Emil í 6. sæti af 2246 nemendum sem tóku þátt á landsvísu í 8.bekk. Við erum afskaplega stolt af honum og það má m.a. þakka metnaðarfullri stærðfræðikennslu í Öxarfjarðarskóla.

Fyrir skemmstu tókum við þátt í rannsókn sem kannar hvernig nemendur og kennarar geta byggt á fjöltyngi sínu og auðlindum. Við fengum heimsókn frá lektor og prófessor frá HÍ og HA, þeim Renötu Peskova og Hermínu Gunnþórsdóttur sem fengu að skoða skólann, taka viðtöl við tvítyngda nemendur af erlendum uppruna sem og kennara hér sem eru af erlendum uppruna. Gaman að fá að vera þátttakendur í svona rannsókn og enn skemmtilegra að fá hrós frá gestum um það hversu gott starfið er hjá okkur.

Foreldrafélagið hefur stutt vel við skólastarfið en þar er öflug stjórn sem heldur vel utan viðburði innan skólaársins og fjármál nemendasjóðs. Stjórninni er þakkað sérstaklega fyrir gott samstarf í vetur.

Foreldra- og nemendakannanir eru nauðsynlegur hluti þegar kemur að því að meta skólastarfið því við erum í sífelldri endurskoðun með verkferla og annað. Þátttaka foreldra er mikilvæg þar sem kostur gefst á opnum svörum og hægt er að koma því á framfæri sem á brennur og við viljum þakka fyrir allar ábendingar um það sem betur má fara. Í foreldrakönnuninni núna kemur í ljós að foreldrar eru yfir höfuð sáttir með skólann, telja að börnin þeirra séu örugg í skólanum, líði vel og að kennarar hjálpi þeim að ná framförum og að komið sé fram við þau af virðingu – það er mikilvægt. Í fyrra kom fram að foreldrum fyndist þeir ekki nægilega vel upplýstir um það sem fram fer í skólanum en að þessu sinni er svörunin á því mun jákvæðari sem er gott því við reynum að senda út fréttabréf alla föstudaga frá deildunum auk þess sem heimasíðunni er haldið lifandi með fréttum úr skólastarfinu. Niðurstöður þessara kannana verða settar á heimasíðu skólans á næstu dögum sem og ný skóladagatöl leik- og grunnskóla fyrir næsta skólaár 2024-2025.

Skólaráð sendi áskorun nýverið til fjölskylduráðs um nauðsynlegar úrbætur við skólann s.s. viðhald sundlaugarinnar, aðgengi að vörumóttöku og stækkun leikskólalóðar. Við höfum nú fengið tilkynningu þess efnis að sundlauginni verði alveg lokað og þurfum að gera aðrar ráðstafanir með skólasundið frá og með næsta skólaári. Það urðu okkur satt best að segja veruleg vonbrigði og verður áskorun fyrir okkur að leysa.

Það er jafn nauðsynlegt að minnast á það sem vel er gert eins og það sem betur má fara.
Ýmsar og löngu tímabærar endurbætur voru gerðar á húsnæðinu á skólaárinu. Við fengum ný fatahengi í forstofuna, héldum áfram að endurnýja gluggatjöld, starfsmannarýmið var málað og nýtt gólfefni lagt og höfum við fengið þar fína aðstöðu. Einnig náðum við að koma upp heimilisfræðiaðstöðu á neðri hæðinni fyrir litla fjármuni. Þá var skápaeining endurnýjuð inni á Krílakoti. Einnig voru lagfærðar þær mögulegu hættur sem leyndust s.s. í inngangi við leikskólann en þar er kominn lítill rampur og í hringstigann niður hafa verið settir borðar til að fólk renni síður til og detti. Sjá myndir hér fyrir neðan.

Tveir nemendur úr 10.bekk útskrifuðust, þau Bergsteinn Jökull og Katla Björk sem hafa verið okkur samferða undanfarin 10 ár. Þau fluttu hvort sína ræðuna á þessum tímamótum þar sem þau fóru yfir liðin ár og upplifun sína af skólastarfinu. Við þökkum þeim samfylgdina þessi ár og óskum þeim velfarnaðar og alls hins besta um ókomin ár.

Einnig kvöddum við Maríu Hermundsdóttur aðstoðarmatráð til tveggja ára. Henni voru þökkuð vel unnin störf við skólann.

Öxarfjarðarskóla er þá slitið þetta árið – njótið sumarsins!

Myndir frá skólaslitum:

 

Myndir af endurbótum í skólanum: