Í gær fimmtudaginn 23. mars var haldin upplestrarhátíð á Raufarhöfn og ánægjulegt að taka upp þráðinn þar að nýju. Síðustu tvö ár hefur keppnin farið fram á Húsavík.
Ingibjörg Einarsdóttir, einn af frumkvöðlum Stóru upplestrarkeppninnar og fulltrúi radda var að koma í 15. sinn til Raufarhafnar til að m.a. að hvetja til lesturs. Hún hafði orð á því að ánægjulegt væri að sjá Upplestarhátíð á ný á Raufarhöfn fyrir svæðið austan Húsavíkur. Það eru sjöundu bekkingar sem taka þátt í þessari keppni.
Hátíðin var haldin í Hnitbjörgum á Raufarhöfn og var vel sótt og í hléi voru glæsilegar veitingar á vegum Kvenfélagsins á staðnum.
Þátttakendur voru níu talsins komu frá Öxarfjarðarskóla, Grunnskólanum á Raufarhöfn, Grunnskólanum á Þórshöfn og Grunnskólanum á Bakkafirði. Þetta var glæsilegur hópur sem stóð sig vel. Það er sigur út af fyrir sig að standa á sviði og flytja texta fyrir fullan sal af fólki.
Allir sjöundu bekkingar Öxarfjarðar tóku þátt; Ásdís Einarsdóttir, Dagbjört Nótt Jónsdóttir, Davíð Bjarmi Víkingsson og Þorsteinn Gísli Jónsson. Í undirbúningi hátíðar tóku allir nemendur miðdeildar þátt.
Fræðslufulltrúi Norðurþings, Jón Höskuldsson, setti hátíðina áður en ungmennin hófu lestur. Það var ánægjulegt að hlusta á nemendur flytja mismunandi texta og ljóð og allir nemendur fengu rós og viðurkenningu fyrir þátttöku.
Það hefur eflaust verið vandasamt fyrir dómnefnd að velja í efstu sætin. Í fyrsta sæti var Nikola María Halldórsdóttir, Grunnskólanum á Raufarhöfn, í öðru sæti var Dagbjört Nótt Jónsdóttir, Öxarfjarðarskóla og í þriðja sæti var svo Þórey Lára Halldórsdóttir, Grunnskóla Bakkafjarðar. Ásdísi Einarsdóttur voru veitt sérstök verðlaun fyrir túlkun á ljóðinu Hvítabjörninn, sem er langt og krefjandi ljóð eftir Davíð Stefánsson.