Í dag var haldið þorrablót í skólanum í hádeginu. Ákveðið var að gefa nemendum svolitla innsýn inn í það hvernig þorrablót eru haldin hjá landanum með gleði, söng, gríni og þjóðlegum mat. Ekki voru allir jafn hrifnir af súrmatnum eða hákarlinum en einhverjir fengust þó til að smakka svolítið og sumir borðuðu allt með bestu lyst.
Við fengum til okkar harmonikuleikara til að spila undir fjöldasöng, nemendur unglingadeildar sáu um skemmtiatriði sem innihéldu kennara/starfsmannagrín en miðdeild var með myndband þar sem þau léku hvernig hlutirnir voru í gamla daga miðað við það sem nú tíðkast, s.s. leiki barna, söng og dansmenningu. Þau sáu einnig um leiki og spurningakeppni. Þarna eru komnar framtíðar þorrablótsnefndir sem fara létt með hlutverkið. Leikskólabörnin af Vinakoti tóku einnig þátt með okkur. Virkilega skemmtilegur viðburður sem við erum ákveðin í að halda aftur að ári. Hér má sjá myndböndin sem nemendur gerðu https://oxarfjardarskoli.nordurthing.is/is/nemendur/myndbond