Um árshátí­ð Öxarfjarðarskóla, Dýrin í­ Hálsaskógi og gildi slí­ks verkefnis

Leiklist og lykilhæfni:

Í Aðalnámskrá 2011 er lögð áhersla á að meta lykilhæfni nemenda. Þegar foreldrar og kennarar eru spurðir um hvaða lykilhæfni þeir telja mikilvægast að nemendur tileinki sér og fari með upp úr grunnskólanum? Þá eru það eftirfarandi gildi sem tróna yfirleitt efst: Sjálfstraust og félagsfærni. Fátt þjálfar betur þessa þætti en leiklist. Farsæl samskipti og örugg framkoma eru lykilatriði í öllu mannlegu atferli og gildir þá einu hvort um er að ræða börn eða fullorðið fólk. Margir kvíða því að þurfa að koma fram fyrir aðra og eiga erfitt með að tjá skoðanir sínar enda er leikni í slíkri framsögn ekki sjálfgefin, heldur krefst bæði mikillar og markvissrar þjálfunar. Það er því mikilvægt styrkja þessa þætti hjá nemendum og gefa þeim tækifæri til að stíga á svið og tjá sig með leiklist, upplestri eða söng.

 Það er augljóst að fáar listgreinar eru eins vel til þess fallnar og leiklist er, til að þróa vitund barna um gildi samvinnu og auka með þeim samkennd. Það gengur á ýmsu meðan á æfingum stendur og það reynir á, en að sýningu lokinni eru nemendur yfirleitt stoltir og reynslunni ríkari. Sterk sjálfsmynd og góð félagsfærni stuðlar að bættu skólastarfi, námsárangri og betri líðan barna/nemenda. Það er fleira nám en bóknám.

 Dýrin í Hálsaskógi:

Fimmtudagskvöldið 10. apríl, kl. 19:30 í Skúlagarði, steig stoltur hópur nemenda á svið með eitt stórt verkefni, Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner og var það Hrund Ásgeirsdóttir sem leikstýrði verkinu. Allir nemendur grunnskólans tóku þátt í þessu verkefni ásamt elstu nemendum leikskólans. Í hléi var foreldrafélagið með kaffisölu. Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, var á ferð um Norðurland og sat þessa sýningu með okkur ásamt biskupsritara, Þorvaldi Víðissyni og voru þau mjög ánægð með sýninguna. það var gaman að þau skyldu gefa sér tíma til að vera með okkur þessa kvöldstund. Víðtæk samvinna skólasamfélagsins, milli nemenda, starfsfólks Tónlistarskólans og Öxarfjarðarskóla, foreldra, afa og annarra velunnara, sem gerði okkur kleyft að gera þessa sýningu svo glæsilega vakti athygli biskups og biskupsritara. Í hátíðarræðu sinni, 20 apríl s.l. í Dómkirkjunni, talar biskup m.a. um árshátíð Öxarfjarðarskóla og það að allir nemendur hafi tekið þátt og að foreldrar og fl. spilað í hljómsveitinni. Biskup talaði einnig um kraftmikið fólk á norðausturlandi og vitnar í verk Thorbjörns Egner:  Dýrin komu sér saman um að öll dýrin í skóginum ættu að vera vinir. Þetta samkomulag úr leikritinu þekkjum við og ljóst er að það heldur ekki nema allir samþykki það og leggi sig fram um að láta það ganga eftir. Ég held að við getum tekið undir þessi orð biskups.

 Önnur sýning sunnudaginn 27. apríl kl. 15:00:

Önnur sýning verður sunnudaginn 27. apríl kl. 15:00. Við hvetjum fólk til að koma með börnin á þessa sýningu sem er sett upp sérstaklega til að koma til móts við barnafjölskyldur. Inn á sýninguna kostar kr. 2.000 fyrir fullorðna, kr. 1.000 fyrir börn á grunnskólaaldri. Ókeypis verður fyrir börn á leikskólaaldri.

 Sagan um Dýrin í Hálsaskógi, sem kom fyrst út árið 1953, hefur lifað með þjóðinni í áratugi. Egner lýsti Hálsaskógi þannig: Hálsaskógur er lítill skáldaður heimur, sem getur á margan hátt minnt á okkar stóra heim. Dýrin í skóginum eru ævintýrapersónur sem fá persónueinkenni bæði frá dýrum og mönnum. Þau eru með dýranöfn og dýralegt útlit, en eru í fötum og ganga upprétt á tveim fótum - og minna okkur á fólk í mörgu af því sem þau gera og segja.

Við erum í samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur og höfum notið liðsinnis Lisu McMaster og Reynis Gunnarssonar við undirbúning þessa verks. Þá höfum við enn á ný fengið að njóta krafta meðlima hljómsveitarinnar Legó, þeirra Sigga, Haffa og Tryggva, sem spila undir á sýningunni ásamt, Ann-Charlotte, Lisu og Reyni. Nokkrir nemendur tónlistarskólans spila einnig með hljómsveitinni.

 Heilmikil vinna liggur á bak við verk sem þetta og það eru flott börn og ungmenni sem þarna stíga á svið. Ég vil, enn og aftur, þakka öllum sem hafa komið að þessari vinnu á einn eða annan hátt; m.a. nemendum, starfsfólki, foreldrum og velunnurum. Það sýndi sig svo sannarlega að við eigum hæfileikafólk á hverju strái í undirbúningi og flutningi verksins og er það ekkert sjálfgefið. Og höfum í huga að: „Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir“.

 

Guðrún Sigríður Kristjánsdóttir,

skólastjóri Öxarfjarðarskóla.