Litlu jólin voru haldin hátíðleg í skólanum í dag.

Smellið á lesa meira til að lesa pistil Guðrúnar skólastjóra um litlu jólin

Litlu jólin

Í dag, 18. desember, voru litlu jólin haldin hátíðleg . Hátíðin hófst með því að allir komu saman í gryfju og nemendur í 8. og 9. bekk sungu sálminn kunna Heims um ból á dönsku, þýsku, ensku og að sjálfsögðu á íslensku. Nemendur 4. bekkjar spiluðu fyrir okkur á  blokkflautur m.a. jólalag. Þetta var frumraun þessara nemenda í tónlistarflutningi á sviði og stóðu þeir sig með ágætum.

 

 

Hátíðarmatur, jólasögur og pakkapúkk

Kl. 12:00 var hátíðarmatur til reiðu hjá Ellu og Björgu, Norður- þingeyskt hangikjöt ásamt meðlæti og ís og ávextir í eftirrétt. Skólastjóri las nemendur saman til borðs og voru eldri nemendur með yngri nemanda til borðs og studdu að sjálfsögðu við þá yngri.

Að hádegisverði loknum fóru nemendur í kennslustofur með kennurum þar sem lesnar voru jólasögur og farið í pakkapúkk.

 

Dansað kringum jólatré og marserað

Sigurður Tryggvason kom með nikkuna og spilaði fyrir dansinum og Rögnvaldur og Daníel leiddu marsinn sem endaði með hringferð um húsið. Þessari hátíð lauk með því að þær Björg og Ella báru fram jólasmákökur.

Myndir frá litlu jólum

Myndir frá leikskóla á aðventu

 

Jólafrí

Jólafrí hefst 20. desember hjá grunnskólanemendum. Föstudaginn 19. desember, síðasta skóladag fyrir jól, munu nemendur vera í umsjá umsjónarkennara. Skólabíll fer frá Lundi á hefðbundnum föstudagstíma þ.e. kl. 13:30. Starfsdagur er hjá starfsfólki skólans 5. janúar 2009. Nemendur mæta svo á aftur í skólann, á nýju ári, á hefðbundnum skólatíma, þann 6. janúar. Leikskólabörn fara í jólafrí frá og með 24. desember og mæta aftur til leiks þann 6. janúar eins og grunnskólabörnin.


Leikskóladeild

Deildarstjóra leikskóladeildar langar að koma á framfæri þakklæti og kærum kveðjum  til þeirra grunnskólanemenda Öxarfjarðarskóla sem komið hafa, í vali, með skemmtilegt og gott starf inn í leikskólann.

 


Jólakveðjur

Okkur langar til, fyrir hönd starfsfólks, að þakka foreldrum, forráðamönnum, nemendum og öðrum velunnurum kærlega fyrir gott samstarf í vetur og óskum ykkur öllum gleðilegra jóla. Hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.

Kær kveðja,

Guðrún og Hrund