Alþjóðlegi bangsadagurinn var 27. október. Af því tilefni skrifuðu yngstu nemendur skólans bangsasögur og/eða teiknuðu bangsamyndir. Stefanía á bókasafninu heimsótti síðan deildirnar í Lundi og á Kópaskeri í gær og veitti viðurkenningar fyrir þáttökuna. Allir nemendur fengu viðurkenningarskjal og einnig gaf Stefanía hvorri deild bókina Ljóð unga fólksins 2006 sem er safn ljóða nemenda á grunnskólaaldri. Einn heppinn nemandi úr hvorri deild var dreginn úr potti og fékk sá bókasafnsbangsa þessa árs. Hinir heppnu voru Ingunn og Úlfur. Stefanía mætti líka með bangsa síðustu ára og gátu nemendur skoðað þá og knúsað.
Frá árinu 1998 hafa bókasöfnin á Norðurlöndum haldið bangsadaginn hátíðlegan. Saga bangsadagsins nær til 1902 en þá birtist skopmynd í Washington Post um atvik þegar Theodore (Teddy) Roosevelt, þáverandi Bandaríkjaforseti, neitaði að skjóta særðan bangsa. Í kjölfar þessa fékk búðareigandi í New York leyfi forsetans til að nota nafnið Teddy-bear á leikfangabangsa sem hann bjó til. Það merkilega er að bangsinn varð einnig til í Þýskalandi á sama tíma. Bangsinn er því yngri en raflýsing, sími og bílar.
Theodore Roosevelt fæddist 27. október 1858. Hann skrifaði um 36 bækur, stofnaði 150 þjóðarskóga og 5 þjóðgarða og það fer því vel á því að helga afmælisdag hans bangsanum.
Myndir frá bangsadeginum er að finna hér og sögurnar má sjá hér