Þegar við hófum
að bjóða upp á lengda viðveru í skólanum ákváðum við að bjóða nemendum unglingadeildar upp á
björgunarsveitarval undir leiðsögn Kidda og Steina. Þátttakan kom á óvart, eða 17 af 21 nemanda völdu að taka þátt.
Markmið verkefnisins er að kynna fyrir unglingunum hversu fjölbreytta og skemmtilega möguleika íslensk náttúra hefur til ferðamennsku og útivistar,
hvort heldur sem að sumri eða vetri. Þessum aldurshópi hættir til að festast í inniveru í tómstundum sínum frekar en að vera úti
og njóta náttúrunnar. Hér í dreifbýlinu er aðgengi þessa aldurshóps að tómstundamöguleikum er takmarkað en við erum
það heppin að á svæðinu er stórbrotin og mikilfengleg náttúra sem allir geta notið. Samhliða þessu munu þau kynnast starfsemi
og tilgangi björgunarsveita og þeim hættum og skyldum sem ferðalögum í íslenskri nátturu fylgja.
Við hittumst vikulega á miðvikudögum
þar sem til skiptis er innikennsla og æfingar inni, og hins vegar er farið út þar sem látið er reyna á það sem hefur verið kennt. Stefnt
er á þrjár æfingaferðir (helgarferðir) á tímabilinu. Eina fyrir áramót og tvær eftir áramót. Einnig er stefnt
á að fara í styttri ferðir til að æfa klifur í klifurveggjum og komast í báta. Svo verða einhverjar dagsferðir eftir veðri og
aðstæðum.
Krakkarnir eru mjög áhugasamir og spenntir í starfinu og er vonandi að þau eigi eftir að nota og njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem þau
fá í starfinu.
Myndir úr starfinu þar sem krakkarnir æfa
m.a. hnúta, prófa sigtól í brattri brekku og loks síga fram af skólahúsinu er hægt að skoða hér.