Í gær, á Degi íslenskrar náttúru, fögnuðum við í Öxarfjarðarskóla með því að efna til ratleikjar meðal allra nemenda grunnskólans. Nemendum var skipt í aldursblandaða hópa og áttu í sameiningu að leysa þrautir sem búið var að hengja upp hér og þar í nágrenni skólans. Þrautirnar voru af ýmsum toga þar sem reyndi meðal annars á plöntu- og fuglakunnáttu nemenda, listfengi þeirra, talnaskilning, hugmyndaflug, fínhreyfingar, útsjónarsemi og samvinnu. Lokaþrautin var svo að þeyta rjóma í poka sem reyndi á þolinmæði og var rjóminn nýttur út í kakó sem þátttakendur fengu í lokin. Í morgun voru svo afhentar viðurkenningar. Virkilega skemmtileg samvera með frábærum krökkum. (LBS)