Dagur í­slenskrar tungu

Undanfarin ár hefur16. nóvember verið haldin hátíðlegur í íslenskum skólum sem Dagur íslenskrar tungu. Ástæðan fyrir því að þessi dagur varð fyrir valinu er sú að þetta er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, eins ástsælasta skálds þjóðarinnar. Dagurinn í dag var sérstakur að auki þar sem Jónas átti 200 ára fæðingarafmæli.

Við í Öxarfjarðarskóla ákváðum að hafa íslenska málshætti og orðtök sem þema dagsins.
Í Lundi kom yngsta deildin fram og fluttu málshátt sem þau höfður teiknað mynd við. Miðdeildin kom fram og lásu örsögur sem þau höfðu samið út frá málsháttum. 8. bekkingar léku með látbragði ýmsa málshætti og orðtök. 9. bekkingar höfðu farið yfir og sett á veggspjald nokkur gullkorna Sverris Stormskers þar sem hann snýr út úr íslenskum málsháttum. 10 bekkingar útskýrðu muninn á málsháttum og orðtökum og síðan las hvert þeirra málshátt sem byrjaði á sama staf og nafn þeirra. Síðan fluttu nokkrir 10. bekkinga leikþátt við texta sem þau höfðu samið þar sem þau hrærðu saman ýmsum málsháttum og orðtökum. Huld sagði svo lítillega frá ástæðum þess að við höldum þennan dag hátíðlegan.
Nemendur unglingadeildar höfðu útbúið spjöld með málsháttum og skýringum sem búið var að plasta og hengja víða um skólann.

Á Kópaskeri var farið vítt og breitt. Kennarar kynntu, auk Jónasar Hallgrímssonar, Hallgrím Pétursson, uppruna íslenskrar tungu og það hversu ritmálið okkar hefur lítið breyst. Lesnar voru fyrir nemendur mannlýsingar til forna og nemendur giskuðu á kappann m.a. Gunnar á Hlíðarenda og Egil Skallagrímsson. Sungin voru íslensk lög af ýmsu tagi bæði gömul og ný við undirleik bæði gítars og píanós. Nemendur miðdeildar fóru á svið og lásu úr heilræðavísum Hallgríms Péturssonar.