Endurskinsvesti, sumarlokun o.fl.

Slysavarnafélagið Landsbjörg gefur endurskinsvesti
Slysavarnafélagið Landsbjörg gefur fjögurra til fimm ára leikskólabörnum endurskinsvesti til að nota í vettvangsferðum. Gjöfin er hluti af verkefninu Allir öruggir heim sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur fyrir í samvinnu við fleiri aðila, m.a. Neyðarlínuna. Vestin eru vönduð og merkt neyðarnúmerinu 112 og heiti átaksins á baki.
Í dag 10. júlí komu fulltrúar frá Björgunarsveitinni Núpum, þeir Ómar Gunnarsson og Kristján Ingi Jónsson og afhentu leikskóladeild Öxarfjarðarskóla vestin og þökkum við kærlega fyrir þetta framtak og þessi vönduðu vesti. Það er mikilvægt að minna á að það eykur öryggi að vera vel sjáanlegur í umferðinni og víðar. Þema verkefnisins er eins og áður er sagt: Allir öruggir heim, því við eigum öll rétt á því að koma örugg heim ekki síst yngstu borgarar landsins. Gott framtak.

Veisla í Stóru Mörk
Í gær 9. júlí borðuðu leikskólabörnin og starfsfólk leikskóladeildar, sannkallaðan veislumat með eldri borgurum í Stóru Mörk og fengu ís í eftirrétt og við þökkum þeim Önnu Láru og Öldu kærlega fyrir hlýleg samskipti og góða þjónustu. Þetta var í síðasta skipti sem allir voru saman fyrir sumarfrí. Síðar um daginn voru bakaðar vöfflur í leikskólanum og borðaðir ávextir.

Sumarlokun
Nú hefst sumarlokun frá deginum á morgun, föstueginum 11. júlí og hefst leikskóli aftur 18 ágúst.

Kærar kveðjur,
Guðrún S. K.