Í dag og í gær fór meirihluti unglingadeildar í göngferðir upp á fjöll í nágrenni skólans í fylgd fjögurra starfsmanna.
Veðrið lék við hópinn báða dagana og gerði þetta að ógleymanlegri upplifun.
Krakkarnir stóðu sig allir ótrúlega vel í þessum ferðum og einstaklega ánægjulegt að sjá hvað þau höfðu gaman af þessu. Þau geta verið stolt af sér yfir góðum árangri og persónulegum sigrum.
Smellið á lesa meira til að sjá ferðasöguna.
Í gær var farið á Þverárhyrnuna en efsti tindur hennar er í rúmlega 540 metra hæð. Það var lagt af stað frá innsta bústað í Þverárdal og gegnið eftir melum og hólum upp að Hyrnu. Á leiðinni var farið í öryygisatriði eins og ísaxarbremsur. Áður en komið var í brattasta hlutann var hópnum skipt í tvennt og allir út hvorum hóp tengdir saman í línu sem húkkað var í sigbeltin. Þegar það var farið að nálgast tindinn var orðið ansi bratt og ís og harðfenni sem þurfti að fara yfir og þurftu margir að yfirvinna lofthræðslu og læra að treysta á búnaðinn á leiðinni yfir. En allir höfðu sig yfir og gátu hvílt sig neðan við síðasta haftið, klettabeltið á sjálfan toppinn. Það lagði ekki nema hluti hópsins á sjálfan toppinn þar sem síðustu metrana þarf að brölta upp klettabelti sem er ekki árennilegt ísað, en þau hörðustu létu það ekki stoppa sig þegar búið var að setja upp öryggislínu sem hægt var að toga sig upp. Eftir myndatöku á toppnum var haldið sömu leið til baka og voru allir komnir að bílunum um kl 17 eftir ríflega sex tíma göngu. Það var þreyttur en ánægður hópur sem skílaði sér niður og og voru full eftirvæntingar að takast á við næsta fjall.
Nánast sami hópur hélt í morgun af stað á Sandfellið. Einn nemandi frá í gær ákvað að hvíla sig í dag en tveir bættust við sem ekki fóru í gær þannig að samtals taldi hópurinn 17 manns og einn hund. Gengið var frá túni ofan Sandfellshaga upp að hvilftinni sem er norðvestan í fjallinu. Ferðin sóttist mjög vel enda mannskapurinn orðinn vanari og öruggari með sig og náðum við toppnum, sem GPS tækið sagði rúma 520 metra, rétt upp úr kl 12. Eftir að hafa borðað nestið var farið að skoða mögulegar niðurleiðir. Það varð svo úr að 6 nemendur fóru undir leiðsögn Lottu niður vestur af fjallinu en afgangurinn af hópnum fór á sigvaði niður austan við vörðuna. Hópurinn var svo kominn til baka í skólann upp úr kl 15 og þótti þá mörgum kærkomið að skella sér í heita pottinn fyrir heimferðina.