Nemendur eru jákvæðir í garð heildstæðs skóla og alla jafna ánægðir með það sem í boði er. Í þessari viku eiga nemendur að velja fyrir nóvembermánuð og bætast inn nýjar tómstundir og námskeið þó eitthvað haldi sér áfram, t.a.m björgunarsveitarnámskeið, fimleikar, fótbolti og opin handmenntastofa. Við komum til með að bjóða upp á námskeið í eldamennsku þar sem áherslan verður m.a. lögð á hvernig hægt sé að nýta afgangana úr ísskápnum – ekki sem verst að kunna að bjarga sér og nýta allan mat!
Nemendum í 7.-10. bekk er boðið á samskólamót til Vopnafjarðar 21. nóvember n.k. og munum við senda út upplýsingar um leið og við höfum fengið dagskrána í hendurnar.
Alþjóða bangsadagurinn var á mánudaginn, 28. október, en á þriðjudaginn máttu nemendur koma með bangsana sína
í skólann. Við fengum heimsókn frá bókasafninu, dregin var út bangsamynd sem nemendur yngri deildar hafa verið að gera og fékk hinn heppni
bangsa í verðlaun. Það var Unnar Þór sem var hinn heppni þetta árið.
Þarsíðustu helgi fóru nemendur 9. og 10. bekkjar á stuttmyndanámskeið til
Akureyrar með Kidda og fengu námskeið í því hvernig stuttmyndagerð fer fram og fengu að spreyta sig í þeirri list! Þau hafa
flest verið á stuttmyndanámskeiði hjá honum þannig að þetta var kærkomið tækifæri til að fá að prófa sig
í listinni. Smellið hér til að
sjá afrakstur námskeiðsins.
Fleiri nemendur hafa verið í stuttmyndagírnum og nokkrar stúlkur úr 8. bekk hafa sett saman myndband í myndbandasamkeppni grunnskólanna fyrir 66° norður og finnst okkur það langflottast að sjálfsögðu! Við hvetjum alla til að fara á vef 66° norður www.66north.is, skoða og kjósa myndbandið þeirra sem er nr. 9 (lokað verður fyrir kosningu 5. nóvember).
Miðdeildarnemendur hafa undanfarið verið að hanna líkan að húsi. Þau
byrjuðu ferlið með því að byggja hús úr legókubbum, tóku mynd og ljósrituðu og byggðu síðan hús úr
mjólkurfernum í réttum hlutföllum. Húsið var svo gefið inn á leikskóla og vakti það mikinn fögnuð þegar
smáfólkið mætti á mánudagsmorgninum
Nemendur yngri deildar byggðu smáþorp úr leir og títuprjónum þar sem hugmyndirnar létu ekki á sér standa og ekki hægt
að segja að við komum að tómum kofunum hjá þeim!
Nú er snjórinn kominn eftir nokkuð rysjótta tíð upp á síðkastið. Það er fagnaðarefni fyrir leikskólabörnin sem vita fátt skemmtilegra en að vera úti þar sem við erum svo lánsöm að eiga skemmtilegt útivistarsvæði af náttúrunnar hendi. Það kemur sér vel þar sem verið er að endurhanna og gera upp leikvöllinn sem innan tíðar mun verða iðandi af kátum krökkum!
Eins og einhverjir foreldrar hafa eflaust tekið eftir, er ekki mikið sem sett hefur verið inn á mentor.is upp á síðkastið og er það einkum vegna þess að tölvusambandið er ekki nægilega öflugt fyrir þessa síðu. Í athugun er hvort skólinn haldi áfram með Mentor.
Í síðasta tölvupósti minntumst við á könnun sem við ætluðum að senda út í síðustu viku, hún er nú farin út og biðjum við ykkur að taka endilega þátt. Þá er einnig búið að senda út könnun á starfsmenn og einnig verða kannanir lagðar fyrir nemendur á næstunni.