Fréttakorn í­ janúar frá Öxarfjarðarskóla

Gleðilegt nýtt ár 2009!

Nú eru liðnar rúmar tvær vikur af nýju skólaári og starfsfólk og nemendur koma jákvæðir til leiks og tilbúnir að takast á við verkefni nýrrar annar.  

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á stundatöflum nemenda, mest þó í miðdeild þar sem Ann-Charlotte er farin í barneignarfrí.  Inga Fanney hefur nú tekið við miðdeildinni á móti Þorsteini sem er umsjónarkennari þeirra og hefur Þorsteinn einnig tekið við íþróttakennslu í 5.-10 bekk, ásamt Conny sem hefur umsjón með yngri deild.

Í unglingadeild fá nemendur eftirleiðis vikuáætlun í íslensku sem þeir eiga að inna af hendi í skólanum og vera búnir að ljúka í vikulokin.

Nýir nemendur

Átta nýir nemendur hafa hafið skólagöngu hjá okkur í Öxarfjarðarskóla, þrír í grunnskólanum en það eru þeir Sindri Þór, Hafsteinn Viktor og Bogi Rafn og í leikskóladeildinni eru þau fimm en það eru: Þorsteinn Gísli, Sigurður Kári, Dagbjört Nótt, Óðinn og Friðrik Rafn.  Við bjóðum þau öll hjartanlega velkomin til okkar og hlökkum til samstarfsins við foreldra og forráðamenn.

 

Heildstæður skóli

Heildstæður skóli heldur áfram og eru nemendur búnir að velja fyrir janúarmánuð.  Hins vegar þurfum við að gera breytingar á fimmtudagsvali þar sem fótboltanámskeiðið frá Völsungi hefur því miður verið fellt niður vegna niðurskurðar.  Verið er að kanna hvort við gætum boðið áfram upp á fótbolta með aðstoð foreldris.  

Við vorum svo heppin að fá “gamlan” nemanda til okkar, Charlottu Englund, sem ætlar að hafa myndmenntanámskeið í staðinn nú í janúar.  Þá ætlar Stefán Leifur að bjóða upp á matreiðslunámskeið í febrúar fyrir stúlkur í unglingadeild, samskonar og það sem hann hélt fyrir strákana fyrir jól. 

Við erum afar þakklát fyrir þann velvilja sem foreldrar sýna skólastarfinu með því að rétta fram hjálparhönd í þeim verkefnum sem boðið er upp á.

 

Námsmat

Í janúarlok fá nemendur námsmat í hendur og einhverjir kennarar munu leggja fyrir nemendur kannanir á næstu vikum. 

 

Framundan

Atriði Beisisins á söngvakeppni Samfés í fyrraÁ morgun, þriðjudag, ætlar 8. bekkur að fara í útinám með Önnu heimilisfræðikennara og Þorsteini.  Við minnum nemendur á að taka mið af veðri og vindum þegar hugað er að klæðnaði því útiveran tekur lungann úr deginum.

 

Undankeppni fyrir söngkeppni Samfés verður haldin á Hvammstanga nk. föstudag 23. janúar þar sem Sylvía Dröfn syngur fyrir hönd Beisisins gamla Donnu Summer slagarann “Hot stuff” með dyggri aðstoð nokkurra nemenda úr 8. 9. og 10 bekk. Við óskum þeim að sjálfsögðu velfarnaðar og erum stolt af öllu því hæfileikaríka fólki sem við eigum innan okkar raða.  Kristján Ingi og Conny verða fararstjórar í þessari ferð og fá nemendur heim nánari upplýsingar.

 

Bestu kveðjur úr Öxarfjarðarskóla,

Hrund