Framhaldsskólinn á Húsavík stóð í dag fyrir spurningakeppni fyrir grunnskólana í Þingeyjarsýslum. Þetta var liður í undirbúningi liðs þeirra fyrir Gettu betur keppnina og var undirbúnigur að mestu í höndum keppnisliðs FSH. Til keppni mættu 6 lið frá fimm skólum; tvö frá Borgarhólsskóla, úr Mývatnssveit, frá Raufarhöfn og Þórshöfn og úr Öxarfjarðarskóla.
Hver einasti nemandi unglingadeildar Öxarfjarðarskóla fór með að styðja okkar lið, ásamt fjölmörgum kennurum og foreldrum.
Keppendur fyrir hönd Öxarfjarðarskóla voru Jóhanna Margrét úr 9. bekk og Aðalbjörn og Einar úr 10. bekk.
Í fyrstu umferð kepptu Öxarfjarðarskóli á móti Þórshöfn, Borgarhólsskóli B á móti Raufarhöfn og Borgarhólsskóli A á móti Mývetningum. Sigurvegarar fyrstu lotu voru Öxarfjarðarskóli og bæði lið Borgarhólsskóla. Fóru þau lið því áfram í aðra umferð ásamt Mývetningum sem voru stigahæsta tapliðið.
Í annarri umferð keppti Öxarfjarðarskóli við Borgarhólsskóla B og Borgarhólsskóli A við Mývetninga. Öxarfjarðarskóli og Borgarhólsskóli A unnu og kepptu því til úrslita. Þrátt fyrir hetjulega baráttu og að vera yfir að stigum eftir hraðaspurningar tókst okkar fólki ekki að halda forskotinu og sigu Borgarhólsskólamenn hægt og bítandi fram úr og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar.
Að spurningakeppninni lokinni bauð FSH keppendum og stuðningsfólki sem kom frá skólunum utan Húsavíkur upp á Pizzuveislu á Sölku. Að því loknu var haldið í leikhús að sjá Biblíu unga fólksins, frumsamið verk eftir Kristjönu Maríu sem nemendur Borgarhólsskóla settu upp.