Í dag fengum við skemmtilega heimsókn í skólann. Martin, Matthias og Franzi eru Þjóðverjar sem halda í 800 ára gamla hefð þar sem handverksmenn þurftu að loknu námi að ferðast um í jafnlangan tíma og námið tók og bjóða fram vinnu sína gegn fæði og húsaskjóli. Námið tekur þrjú ár og er venjan að vera að lágmarki þrjú ár og einn dag á ferðinni. Einu sinni var þetta skylda en er það ekki lengur þó flestir fari á eitthvað flakk. Martin er búinn að vera 16 mánuði á ferðinni en Matthias og Franzi eru bæði komin aðeins fyrir þriggja ára markið. Þau eru þessa dagana stödd á Daðastöðum að aðstoða við ýmis tilfallandi störf og tóku góðfúslega í það að heimsækja nemendur skólans og vera með smá kynningu á þessum skemmtilega sið. Þau byrjuðu á að hitta nemendur mið- og unglingadeildar þar sem þau sögðu frá sér og sýndu stafina sína og verkfæri sem þau ferðast með. Annars er ekki mikill farangur sem þau ferðast með. Þau komu í ferðafötunum sínum en svo eru þau með vinnuföt sem eru í svipuðum stíl, auka nærfatnað og föt til að sofa í og svefnpoka ásamt helstu handverkfærum. Öllu þessu er pakkað inn í klúta upp á gamla mátann. Eftir að hafa spjallað við nemendur mið- og unglingadeildar hittu þau bæði leikskólanemendur og nemendur yngstu deildar. Leikskólanemendur gerðu sér lítið fyrir og sungu fyrir gestina, fyrst á íslensku og síðan á þýsku gestunum til mikillar gleði. Þetta er hið almennilegasta fólk og erum við þakklát fyrir að þau skyldu taka því svona vel að heimsækja okkur.
Myndir frá heimsókninni má finna inni á nýrri Facebooksíðu skólans:Â https://www.facebook.com/oxarfjardarskoli