Um síðustu helgi var haldið Landsmót á vegum Samfés fyrir unglingaráðin í félagsmiðstöðvum landsins. Við fórum þrír umsjónarmenn með 16 krakka úr félagsmiðstöðvunum þremur sem reknar eru af sveitafélaginu. Ferðin heppnaðist mjög vel og voru krakkarnir sjálfum sér og sveitarfélaginu til mikils sóma. Það er ekki erfitt að vera umsjónarmaður með svona þægilegum hópi.
Að þessu sinni var landsmótið haldið í Garðinum á Reykjanesi. Við lögðum af stað snemma á föstudagsmorgni með rútu frá Rúnari Óskarssyni. Við renndum upp að skólahúsinu í Garði nánast á slaginu kl 18. Þá tók við að koma sér fyrir en að því loknu var farið í setningarathöfn í íþróttahúsinu þar sem boðið var upp á snittur og gos. Síðan tók við sundlaugarpartý sem að þessu sinni var fámennara en oft. Kuldinn fældi trúlega einhverja frá og aðrir lögðu ekki í að fara eftir að þeir sáu stærð laugarinnar. Kannski sem betur fer þar sem hætt við að það hefði verið þröngt um rúmlega 300 unglinga í laug sem er í mesta lagi ætluð 150 manns.
Á laugardaginn voru smiðjur á dagskrá. Þar höfðu krakkarnir átt kost á að skrá sig í smiðju þar sem þau
gætu unnið að áhugamáli sínu. Smiðjurnar voru haldnar í nánast öllum bæjarfélögum á Reykjanesskaganum.
Fjölbreyttar smiðjur voru í boði, s.s. björgunarsveitarsmiðja, listasmiðja, umræðusmiðja, danssmiðja, tónlistarsmiðja,
hárgreiðslusmiðja, förðunarsmiðja, fatahönnun, íþróttasmiðja o.fl.
Eftir smiðjurnar var frjáls tími sem hægt var að nota til að kynnast öðrum krökkum, fara í sund og byrja að snyrta sig fyrir
kvöldverðinn og ballið. Maturinn var mexikanskt hlaðborð, virkilega góður matur, þó sumum hafi ekki líkað hann neitt sérstaklega.
Síðan var dansað grimmt fram undir miðnætti.
Á sunnudeginum var sofið út. Morgunmatur átti að byrja kl 9 en enginn rumskaði í stofunni okkar fyrr en 20 mínútur yfir. Við höfðum fengið leyfi til að sleppa umræðuþinginu sem átti að byrja kl 10 af því að við áttum eftir að ferðast svo lengi. Það var því farið í að pakka niður og ganga frá stofunni okkar og vorum við síðan lögð af stað heim á leið kl 11 með þreyttan en ánægðan hóp.
Skoða myndir frá KIJ
Myndir frá Víkurfréttum
Myndir úr Sandgerði