Föstudaginn 11. mars fengum við góðan gest með námskeið í skólann. Jóhann Breiðfjörð hefur um nokkurra ára skeið haldið tæknilegó- og nýsköpunarnámskeið í skólum og félagsmiðstöðvum um allt land. Upplýsingar um Jóhann og námskeið hans er að finna á heimasíðunni http://nyskopun.com/.
Allir nemendur 1.-10. bekkjar fengu 80 mínútur hjá Jóhanni en hópnum var skipt í tvennt, 1.-7. bekkur og 8.-10. bekkur. Mikill áhugi og vinnusemi var meðal nemenda þar sem þau grömsuðu í mörgum kössum fullum af kubbum, tannhjólum, lofttjökkum, dekkjum o.fl. Áhuginn var ekki síðri meðal starfsmanna sem sumir misstu sig á kaf í hönnun og smíði úr kubbunum.
Alls voru þar um 100 kg af kubbum og fullt af teikningum sem Jóhann kom með og gátu menn byggt eftir teikningum hans eða gert eitthvað eftir eigin hönnun. Meðal þess sem varð til voru vélmenni sem gátu gengið á fjórum fótum, fjórhjóladrifnir bílar og griparmar.