Listfræðsluverkefni Skaftfells

Við fengum góða heimsókn í dag frá Listfræðsluverkefni Skaftfells. Boðið var upp á tvær smiðjur fyrir mið- og unglingastig þar sem annars vegar var unnið með texta, ljóðagerð og hins vegar prent á óhefðbundinn hátt. Við nýttum góða veðrið til útiveru í ljóðagerðinni og úr varð mikil sköpun og skemmtilegheit. Hér má lesa nánar um verkefnið:
Karawane Killi Mara Kussu Mu er smiðja sem fagnar útþenslu tungumálsins með vitleysuna að vopni. Til að finna upp ný orð þarf að opna hugvitin og anda að sér fersku hráefni stafa. Merking og tákn orða og stafa eru skorin niður og sett saman á annan hátt til að þróa aðra og spennandi tengingu við tungumál meðal annars með hjálp vitleysuljóðlist (nonsense poetry). Þátttakendum gefst tækifæri til að ná að kafa dýpra í skrif og lestur í leik og tilraunum og þeir hvattir til að finna upp ný orð og blanda saman orðum á ýmsum tungumálum. Verkefnið er gert til að efla sköpun í tengslum við hljóð, stafi og lestur. Titill verkefnisins er fenginn frá Hugo Ball úr Dada stefnunni og kvæðum Sæunnar
Jónsdóttur. Smiðjan er hönnuð af Listakonunni og skáldinu Ástu Fanneyju Sigurðardóttur og er kennd af listakonunni Önnu Margréti Ólafsdóttur
Bráðnandi myndir notar naíva prenttækni til að gera abstract myndir. Vaxlitir verða bræddir á álplötur og síðan fluttir yfir á pappír. Með þessu gefum við eftir og bjóðum mistök og slys velkomin og íhugum samsetningu þrátt fyrir að líkurnar séu á móti okkur. Smiðjan er hönnuð og kennd af listamanninum Joe Keys