Á hverju hausti býður Höfundamiðstöð RSÍ grunnskólum um land allt upp á bókmenntadagskrár undir nafninu Skáld í skólum þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. Haustið 2019 fóru sex skáld frá Höfundamiðstöð RSÍ í ævintýraleiðangur með nemendum og kennurum um undraheima bókmennta.
Það voru þau Eva Rún Þorgeirsdóttir og Sævar Helgi Bragason heimsóttu Öxarfjarðarskóla þann 30 október og fjölluðu á fjörugan hátt um töframátt bóka og hvernig þær geta breytt heimi okkar. Nemendur frá elstu börnum leikskólans og upp í 10. bekk, hlustuðu með andakt og spurðu þau Evu og Sævar ýmissa spurninga. Þau Eva og Sævar náðu vel til alls hópsins.
Eva Rún skrifar skáldsögur fyrir börn og hefur m.a. sent frá sér þríleikinn um Lukku og hugmyndavélina. Auk þess kennir hún ritlist og starfar við dagskrárgerð á RÚV og kemur að verkefnum eins og Stundinni okkar og Krakkafréttum.
Sævar Helgi Bragason er margverðlaunaður fræðimaður og skrifar bækur fyrir börn og fullorðna. Hann hefur m.a. sent frá sér bækurnar Svarthol og Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna. Hann starfar sömuleiðis á RÚV við dagskrárgerð. Sævar Helgi Bragason er einnig ritstjóri stjörnufræðivefsins er íslenskur alfræðivefur um allt sem viðkemur stjörnufræði. Honum er ætlað að efla áhuga almennings á stjörnufræði og auðvelda aðgengi að efni um stjörnufræði á íslensku.
Nemendur Öxarfjarðarskóla kunnu vel að meta þessa heimsókn.
Â