Öxarfjarðarskóli var settur sl. þriðjudag 20.ágúst. Í ár verða nemendur alls 61 í samreknum leik- og grunnskóla - þar af 38 grunnskólabörn. Fara þarf ansi langt aftur í tímann til að sjá þann nemendafjölda.
Þetta skólaár hefja 6 nýir nemendur nám - allt drengir; fjórir í 1. bekk og tveir á unglingastigi og voru þeir boðnir sérstaklega velkomnir. Einnig hóf nýtt starfsfólk störf við skólann og erum við afar sátt með þann mannauð sem við höfum á að skipa en í okkar góða hóp bættist Rakel Anna Boulter og mun hún kenna á mið- og unglingastigi. Róbert Karl Boulter hefur einnig verið ráðinn inn sem stuðningsfulltrúi.
Skólasund hefst í Lundi næsta mánudag 26.ágúst og þurfa nemendur ávallt að hafa bæði sundfatnað og íþróttaföt meðferðis.
Skólabílar fara frá endastöðvum kl. 7:45 og þurfa foreldrar að láta bílstjóra vita ef börnin fara ekki með. Í vetur verða skólamáltíðir gjaldfrjálsar fyrir grunnskólabörn en nemendur fá morgunmat, hádegisverð og ávaxtastund alla daga nema föstudaga - þá aðeins morgunmat.
Tónlistarskóli Húsavíkur mun verða í samstarfi áfram við skólann en þrír kennarar þaðan koma 1-2x í viku til að kenna tónmennt, marimba og einkatíma ásamt samsöng sem verður á sínum stað á mánudagsmorgnum.
Búið er að gera lagfæringar á skólalóðinni þannig að öllum bílum starfsfólks verður lagt austan við skólann og er það gert til að minnka umferð og tryggja öryggi barnanna. Þá hefur ærslabelgur verið settur á leiksvæðið en til stendur að setja eitthvað af rólum þar niður aftur.
Fyrsta vikan gekk vel og lögð var áhersla á hópefli með spilum o.fl. Vikupóstar verða sendir út með fréttum frá báðum stigum; yngri deild og mið- og unglingastigi.
Samkvæmt reglugerð um ábyrgð og skyldur allra aðila skólasamfélagsins, er það á ábyrgð nemenda, foreldra og starfsfólks skólans að leggja áherslu á að viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.
Við erum bjartsýn á komandi vetur, leggjum okkur öll fram í námi og kennslu og væntum þess að eiga góð og gefandi samskipti þannig að allir vaxi og þroskist í átt til framfara.