Í morgun komu tónlistarmenn á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla og spiluðu fyrir nemendur og starfsfólks skólans. Tónleikarnir fóru fram í gryfjunni á Kópaskeri. Tónlistarmennirnir voru mjög ánægðir með hversu góðir áhorfendur voru og einnig hversu góður hljómburður er í húsinu. Krakkarnir skemmtu sér vel við að hlýða á ýmis klassísk verk eftir snillinga eins og Bach ásamt því að spila nýlegt verk eftir Mist Þorkelsdóttur. Einnig spiluðu þau kvartett ásamt Nokia gsm síma.
Tónlist fyrir alla er árlegt samstarfsverkefni sveitarfélaga og ríkis sem efnir til tónleikahalds í grunnskólum landsins. Tilgangurinn með þessari tónlistarkynningu er að kynna ólíkar tegundir tónlistar fyrir grunnskólanemum. Að þessu sinni var yfirskrift tónleikanna Tvær flautur og gítar. Flytjendur voru Guðrún S. Birgisdóttir, flautu, Martial Nardeau, flautu, og Kristinn H Árnason, gítar.
Upphafið að verkefninu “Tónlist fyrir alla” má rekja til ársins 1992, en Jónas Ingimundarson píanóleikari er brautryðjandi verkefnisins. Og það er einstaklega ánægjulegt að geta sagt frá því að Jónas kemur einmitt á Kópasker með tónleika annað kvöld, fimmtudagskvöldið 5. október.