Verkefnið Tónlist fyrir alla hefur staðið fyrir tónleikum í grunnskólum frá árinu 1995. Á hverri önn eru um 6-8 tónlistarhópar á vegum verkefnisins á ferð um landið og heimsækja flesta grunnskóla. Tónlist fyrir alla leitast við að bjóða upp á vandaða skólatónleika fyrir börn þar sem skemmtun og menntun haldast í hendur. Tónlistarfólkið býður upp á fjölbreytta tónlist í hæsta gæðaflokki í flutningi atvinnutónlistarfólks. Upplifun barnanna af tónleikunum er lykilatriði og áhersla er lögð á að hún verði sem allra best.
Í dag voru það hjónin Herdís Anna Jónsdóttir, víóluleikari, og Steef van Oosterhout, slagverksleikari, sem heimsóttu skólann og fluttu dagskránna Töfraveröld tóna og hljóða. Þau hafa spilað saman sem Dúó Stemma í rúm 10 ár og flutt barnadagskrá í leik- og grunnskólum um allt land.
Á tónleikunum léku þau hjónin meðal annars á hefðbundin hljóðfæri eins og víólu en jafnframt á óhefðbundin hljóðfæri eins og steinhörpu sem ættuð er frá Páli á Húsafelli og ýmsa hluti sem meðal annars er hægt að finna í eldhúsinu. Bæði börn og fullorðnir skemmtu sér konunglega yfir þulum, þjóðlögum og sögum sem kryddaðar voru hljóðum og tónum. Sérlega skemmtileg var sagan af henni Fíu frænku, þar sem Herdís sagði og lék sögupersónuna en Steef sá að mestu um hljóðheiminn.
Tónlist fyrir alla á bestu þakkir skilið fyrir þetta frábæra verkefni.