Nú er nýlokið afar velheppnaðri bekkjaheimsókn þar sem miðdeildin á Kópaskeri bauð miðdeildinni í Lundi til sín í heimsókn. Krakkarnir voru öll með tölu svo góð og yndisleg og þau skemmtu sér vel.
Það var þéttskipuð dagskrá frá 15:30 er Lundarkrakkar komu í hús. Fyrst var spurningakeppni, síðan kökuveisla, þar næst var farið í íþróttahúsið og farið í Star Wars, skotbolta og folf (frisbígolf). Eftir íþróttahúsið beið pizzuveisla uppi í skóla og að henni lokinni tók við frjáls stund þar sem krakkarnir fóru í leiki eða spil, hlustuðu á tónlist eða spjölluðu saman. Upp úr átta hófst síðan Singstar. Það var mikill áhugi fyrir því og nær allir tóku þátt. Áhuginn var svo mikill að þegar var búið að skrá yfir 50 lög til flutnings, og voru yfirleitt tveir sem sungu saman, þurfti að setja stopp á frekari skráningar og setja kvóta á þá sem höfðu verið duglegasti að skrá sig. Það dugði ekki til því að þegar klukkan var að verða hálf ellefu var ljóst að grípa þyrfti til enn meiri skerðinga hjá þeim atkvæðamestu því listinn var ekki hálfnaður og komið fram yfir tímann þar sem við ætluðum að byrja að horfa á fyrstu bíómyndina. Bíósýningin drógst því fram yfir ellefu og voru þá margir orðnir þreyttir og sofnuðu yfir fyrri myndinni. Aðrir voru duglegri að vaka og tókst að halda sér vakandi til hálf fjögur en þá loks voru flestir sofnaðir.
Klukkan sjö í morgun rifu þeir árrisulustu sig upp og þeir síðust voru reknir á fætur um klukkan tíu. Þá hófst frágangur og gekk mjög vel að ganga frá húsinu þannig að varla var hægt að sjá að yfir 20 manna partý hefði verið nýlokið. Það er því hætt við að einhverjir sofni snemma í kvöld.
Foreldrar voru duglegir að koma og aðstoða og færum við þeim kærar þakkir fyrir það.
Myndir eru komnar inn á netið og er að finna hér.