Föstudaginn 31.mars var árleg Vorgleði Öxarfjarðarskóla haldin í Lundi. Yfirskriftin að þessu sinni var "Saga Íslands" sem eldri nemendur sáu um og þemað "Ég sjálf/ur" í umsjón yngri nemenda en þau hófu Vorgleðina með kynningum á nokkrum básum.
Ekki var hægt að komast inn í veislusalinn fyrr en allir höfðu fengið hjarta með stimplum sem þýddi að þeir væru þá búnir að kynna sér alla pósta hjá yngri nemendum. Efling sjálfsmyndar, hrós og hvatning voru megin leiðarstef í vinnu þeirra og trúlega var "spegilæfingin" sú sem reyndi mest á þá fullorðnu en í henni fólst að standa fyrir framan spegil og segja eitthvað jákvætt við sjálfan sig.
Eldri nemendur höfðu unnið fjölbreytt samþætt verkefni tengd sögu Íslands, ss landnámið, þorskastríðið, ásatrú, rúnir, þjóðhætti, víkinga, galdra og rúnir, íslenska þjóðhætti o.fl.Â
Að venju sáu nemendur um veislustjórn og þjónuðu til borðs, kynningar á verkum sínum, tónlistaratriði o.fl. Foreldrar hafa ávallt lagt hönd á plóg og hafa yfirumsjón með matargerð en í boði eru þriggja rétta máltíðir og borðin svigna undan kræsingum!
Gestir voru virkjaðir með þátttöku í fjöldasöng, spurningakeppni (Kahoot) að loknum kynningum nemenda en einnig voru á borðunum spurningakeppni þar sem verðlaun voru í boði. Kvöldstundin var bæði fróðleg og skemmtileg og gestir kátir með framlag nemenda.
Við viljum koma á framfæri þakklæti til nærsamfélagsins fyrir veitta og veglega styrki til Vorgleðinnar en þeir renna í ferðasjóð nemenda.Â
Hér má sjá myndir frá Vorgleðinni:
Â